Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bitist um myndlist og menningu í Frakklandi

Mynd: Wikimedia Commons  / Wikimedia Commons

Bitist um myndlist og menningu í Frakklandi

29.06.2017 - 16:00

Höfundar

Kalt menningarstríð milli tveggja ríkustu manna Frakklands hefur tekið á sig nýjar myndir síðustu daga. Samtímamyndlistin er eitt af bitbeinunum í sambandi fyrrum vinanna François Pinault og Bernards Arnault.

Verslunarhöll í miðborg Parísar

París við Signubakka er auðvitað forn verslunarstaður sem liggur vel við samgöngum. Í borginni eru þekktir markaðir og nægir þar að nefna fjölmarga matarmarkaði sem eru hver öðrum magnaðari og geta í sumum tilfellum rakið sögu sína aftur fyrir byltingatímabilið sem stóð í franskri sögu frá lokum 18. aldar og langt fram á þá nítjándu.

Sú er líka raunin um bygginguna Bourse de commerce, hringlaga byggingu sem finna má í fyrsta hverfi borgarinnar. Þar fóru menn fyrst að versla með korn á sjöunda áratug 18. aldar í opnum hringlaga garði sem síðan var lokað með mikilli hvelfingu árið 1811. Hvelfing þessi, sem þykir mikil völundarsmíð, er á lista yfir söguleg hnoss borgarinnar.

En eftir því sem árin liðu þarna í Bourse Paris, eins og byggingin er yfirleitt kölluð, var hún nýtt undir viðskipti með hitt og þetta: hveiti, rúg og mjöl, olíu, sykur, áfenga drykki og gúmmí og eftir síðari heimsstyrjöld var farið að höndla með gæði frá fjarlægum löndum: sykur, kakó, kaffi, sojabaunir og repjuolíu. Eftir að menn hættu að æpa sín á milli á slíkum mörkuðum og tóku upp rafræn tölvuviðskipti með slíkan varning hafa einkum verið þar skrifstofur sem snúa að því að efla viðskipti í heimsborginni og koma fótum undir verkefni á því sviði. Formlegri verslun var hætt laust fyrir aldamótin síðustu.

En nú á þessi sögufræga bygging von á nýrri framtíð sem farið er að hylla undir.

Moldríkir karlar

Maður er nefndur François Pinault og er einn af ríkustu mönnum heims, líklegast þar í sæti einhverstaðar á milli nr. 60 og 70. Hann er fæddur árið 1936 en það er sonur hans François-Henri Pinault sem nú fer með stjórn á stórveldinu. Í eignasafninu er ýmislegt sem maður kannast við: Converse íþróttaskór, Samsonite ferðatöskur, Château Latour vínrisinn, Christies uppboðshúsið og Gucci tískuhúsið, svo eitthvað sé nefnt.

Mynd með færslu
 Mynd: samsett mynd - EPA
Feðgarnir François-Henri og François Pinault

Og eitt af því sem François Pinault hefur dundað sér við í gegnum árin er að safna myndlist með góðum árangri. Hann á í dag eitt stærsta safn samtímamyndlistar í heimi og hefur oft verið nefndur einn áhrifamesti aðilinn í hinum alþjóðlega myndlistarheimi á síðustu árum.

Fyrir rúmum tíu árum náði Pinault til dæmis undir sig Pallzzo Grassi höllinni í Feneyjum þar sem stofnun í hans nafni sýnir botnlausan fjársjóð hans þegar kemur að myndlist. Og nú ætlar Francois Pinault sér stóra hluti með Bourse Paris, viðskiptahöllina í miðborg Parísar.

Hörð samkeppni

En það er ljóst að keppnin um það hver sé flottasti velgjörðarmaður listanna í Frakklandi er hörð. Hinn ríkasti maður Frakklands, sem er reyndar enn ríkari, heitir Bernard Arnault.

Mynd með færslu
 Mynd: Ecole polytechnique - Flickr - Ecole polytechnique
Bernard Arnault

Þar erum við að tala um vörumerki í eignarsafninu eins og Dior tískuhúsið, Louis Vutton (og reyndar fjölmörg önnur tískuhús), Möet & Chandon kampavínið og Hennessy koníakið,  skosk viskí, ilmvötn af ýmsum tegundum, Tag Heuer úrin og svo framvegis og svo framvegis. Og jú Bernard Arnault safnar líka myndlist eins og François Pianault. Hann til dæmis verk eftir Picasso, Yves Klein, Henry Moore og Andy Warhol.

Lúxusstríðið

Og þeir eru ekki beint vinir, þeir François Pinault og Bernard Arnault. Það var um aldamótin sem þessir tveir risar í frönsku viðskiptalífi, tveir miljarðamæringar sem bjuggu til veldi sitt sjálfir, bitust um Gucci tískuhúsið. Það var mikil rimma sem endaði með sigri Pinault. Átökin á milli þeirra hafa síðan gegnið undir nafninu „lúxusstríðið.“

Á níunda áratugnum voru þessir viðskiptamógúlar nefnilega nánir vinir. Þegar dóttir annars gifti sig, sat hinn við háborðið í veislunni. Ósigurinn í slagnum um Gucci fór hins vegar þvert ofan í Arnault sem tók málinu sem persónulegri árás. Eftir tveggja ára málaferli um Gucci bætti Pinault gráu ofan á svart með því að „skella sér á“ Yves Saint Laurant tískuhúsið líka en fyrir því sögufræga franska fyrirtæki var Arnault líka mjög spenntur.

Bitist um list

Og svo er það þetta með listina. Hún er svo sannarlega bitbein hjá þessum tveimur miljarðamæringum og menningarfrömuðum í frönsku þjóðlífi. Þeir bítast auðvitað um bestu verkin, þó ekki mæti þeir sjálfir á uppboðin eða heimsæki vinnustofur listamanna. Árið 2006 hóf Arnault verkefni sem ætlað er að halda nafni hans á lofti. Hann fékk bandaríska arkitektinn Frank Gehry til að hanna fyrir sig nýja listastofnun fyrir París, Louis Vuitton listastofnunina sem er að finna í 16. hverfi borgarinnar. Hún er í Boulogne garðinum aðeins vestan við hringveginn sem umlykur París. Byggingin var opnuð árið 2014 og þykir mikið sjónarspil eins og safnið sem hún hýsir, fyrsta sýningin var með verkum Ólafs Elíassonar.

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr - Jean-Pierre Dalbéra
Louis Vuitton listastofnunin var hönnuð af Frank Gehry fyrir Bernard Arnault.

Vill ekki vera minni maður

Og nú, skyldi engan undra, er François Pinault kominn á stjá. Hann vill ekki vera minni maður en Arnault og er búinn að fá vin sinn og stjörnuarkitektinn japanska Tadao Ando til að hanna fyrir sig umbreytingu á áðurnefndri verslunarhöll, Bourse Paris, í miðborginni sjálfri, í fyrsta hverfi. Staðsetningin er fín, kauphöllin fyrrverandi er rétt norðan við sjálft Louvre safnið og Pompidou listamiðstöðina.

Það liggur á

Það á að hafa hraðar hendur við umbreytingu byggingarinnar, hún á að vera tilbúin fyrir opnun í upphafi árs árið 2019. Blaðamanna fundur var haldinn í vikunni og þar sagði nýr menningarmálaráðherra Frakklands, Jean-Jacques Aillagon í ríkisstjórn Macron forseta, að virðing yrði borin fyrir sögu hússins og arkitektúrnum en Tadao Ando mun ætla sér að setja eins konar sívlaning inn í hringlaga bygginguna. Og auðvitað verður grá steinsteypan ekki langt undan en Ando er þekktur fyrir notkun á henni.

Sýningarrýmið verður eitthvað um 3000 fermetrar og víst að Pinault verður ekki í vandræðum með að láta raða verkum sínum inn í það. Stór salur verður byggður neðanjarðar, nýtt andyri og svartur kassi, sem verður sýningarými fyrir vídeó-innsetningar og tilraunalist. Semsagt allt mjög spennandi og stórfenglegt.

Föst skot

Í vikunni gekk Pinault með fjölmiðlafólki og fyrirmennum, meðal annars borgarstjóra Parísar Anne Hidalgo, um þetta verðandi safn sitt. Hann sagðist vilja að safnið næði að smita sem flesta með áhuga hans á samtíma myndlistinni og sjá það í tengslum við myndlistarstarfsemina í Feneyjum, í Palazzo Grassi.  

Hann sagði sig og fjölskyldufyrirtækið taka alla ábyrgð á nýja verkefninu og skaut þar með á Arnault og Louis Vuitton stofnunina hans sem hefur verið gagnrýnd nokkuð í Frakklandi fyrir það að þurfa að reiða sig á opinbert fé.

„Þegar ég sé hve aðstæður eru erfiðar fyrir marga í dag og með tilliti til þess hve stjórnvöld þurfa að forgangsraða rækilega í ríkisrekstri, þá hefði ég álitið það algjört hneyksli að þurfa að reiða mig á aðstoð almennings,“ sagði Pianult hróðugur án þess að gefa nokkuð meira upp um það til hvers hann vísaði. Það vissu svo sem allir, hvort sem er.

Baráttan er hörð og það er ekkert grín að vera forríkur karl í Frakklandi.

Pistilinn úr Víðsjá má heyra hér fyrir ofan.