Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Biskupskjör á næsta ári

12.11.2011 - 18:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Biskupskjör verður á næsta ári. Karl Sigurbjörnsson biskup tilkynnti við upphaf kirkjuþings í morgun að hann hygðist láta af embætti á næsta ári. Um biskup gilda sömu reglur og aðra embættismenn að þeir eru skipaðir til fimm ára en skipunartíminn framlengist, sé embættið ekki auglýst.

Kjörgengir til biskupsembættis eru prestar þjóðkirkjunnar og guðfræðingar, sem hafa full réttindi til að taka prestsvígslu. Þeir sem hafa rétt til þess að kjósa biskup eru biskupar og prestar þjóðkirkjunnar, fastir kennarar í guðfræðideld Háskólans og allmargir leikmenn.

Gera má ráð fyrir að biskupskjör fari fram á vormánuðum en til stendur að vígja nýjan biskup í embætti í júní næstkomandi.

Kirkjuþing var sett í dag en það er æðsta stofnun kirkjunnar og mótar henni stefnu í ýmsum málaflokkum. Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, flutti ávarp við upphaf kirkjuþings og þar kom meðal annars fram að hann ætlar að láta af embætti snemma næsta sumar, hálfu ári áður en skipunartími hans rennur út.

„Ég tel að þetta sé bara orðið ágætt, hálft fimmtánda ár er ágætis tími,“ sagði Karl Sigurbjörnsson í viðtali við fréttastofu RÚV í dag. Hann segir gott fyrir nýjan biskup að taka við þegar undirbúningur næsta kirkjuþings er að hefjast og því vill hann ekki sitja lengur.

Biskup viðurkennir að mál forvera síns, Ólafs Skúlasonar, hafi átt þátt í ákvörðuninni. „Það tekur á að sitja undir ásökunum, ekki bara á mann persónulega, heldur þann sem næst manni standa.“ Hann kveðst þó hætta sáttur. „Ég er ekki hættur, en mun örugglega hætta sáttur við Guð og menn og hlakka til að takast á við ný verkefni,“ segir Karl Sigurbjörnsson, fráfarandi biskup.