Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Biskup las bréf frá konunum á kirkjuþingi

14.11.2017 - 12:36
Kirkjuþing sett í Grensáskirkju 24. október 2015
 Mynd: ruv
Agnes M. Sigurðardóttir biskup las upp á kirkjuþingi bréf frá fimm konum sem kært hafa sr. Ólaf Jóhannsson til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar vegna kynferðisbrota og kynferðislegrar áreitni. Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður kvennanna segir að þær hafi óskað eftir því að bréfið yrði lesið upp vegna umfjöllunar um málið í fjölmiðlum.

Konurnar fimm starfa allar eða hafa starfað innan kirkjunnar. Anna Sigríður Helgadóttir, söngkona, er fyrrverandi tónlistastjóri Fríkirkjunnar í Reykjavík, Elín Sigrún Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Útfararstofu Kirkjugarðanna, Guðbjörg Ingólfsdóttir er starfsmaður Kirkjuhúss, sr. Guðný Hallgrímsdóttir er prestur fatlaðra og er með starfsstöð í Grensáskirkju og Rósa Kristjánsdóttir er djákni og deildarstjóri sálgæslu presta og djákna á Landspítala. 

Þorvaldur Víðisson biskupsritari segir að konurnar hafi óskað eftir því að bréfið yrði lesið á kirkjuþingi og biskup hafi ákveðið að verða við þeirri beiðni. Biskup tjáir sig ekki um málið við fjölmiðla en á vef kirkjunnar segir að ákvörðunin um að senda starfandi prest í leyfi meðan málið er rannsakað sé ekki tekin að ástæðulausu og að biskup telji ekki rétt að mál, sem verið er að rannsaka, séu rekin af Biskupsstofu í fjölmiðlum.  

Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður kvennanna, segir að bréfið sé viðbrögð við yfirlýsingu lögmanns sr. Ólafs sem var send á fjölmiðla, biskup og aðra innan kirkjunnar. „Mínir umbjóðendur vildu fyrst og fremst árétta það að þetta mál er í ákveðnum farvegi innan kirkjunnar í þessari úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar sem er rétti aðilinn til þess að taka á málum af þessu tagi en á alls ekki að vera rekið í fjölmiðlum eða á einhverju gólfi einhverstaðar.“ Þannig að þetta mál er ekki á leið til lögreglunnar? „Nei ég á ekki von á því, ekki sem stendur alla vega.“    

Kirkjan sjálf hafi úrræði, fagráð og úrskurðarnefnd og konurnar hafi valið að fara með málin þangað.  Þyrí segir að brotin hafi átt sér stað á ólíkum tíma. Eru þetta alvarleg brot?  „Já í hugum umbjóðenda minna eru þetta alvarleg brot sem hafa valdið þeim miklum sársauka  -  þær meta þetta sem alvarlegt, já.“ 

Konurnar ákváðu að koma fram af því sr. Ólafur hafi farið með málið í fjölmiðla. „Þá vildu þær ganga fram og segja hér erum við, við erum þessar konur og við teljum að málið sé mun alvarlera heldur en hann vill vera láta. Það er gert mjög lítið úr þessu í þeim yfirlýsingum sem hafa komið frá honum og hans lögmanni.“
 
Ekki er vitað hve langan tíma tekur að fjalla um málið í fagráði og úrskurðarnefnd kirkjunnar.  
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV