Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Biskup gagnrýnin á frumvarp um þungunarrof

26.01.2019 - 06:39
Mynd með færslu
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Mynd: RÚV
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir frumvarp til laga um þungunarrof, sem nú er til umfjöllunar innan þings og utan, fela í sér róttækar og umhugsunarverðar breytingar, en þótt hún vilji styðja og taka þátt í réttindabaráttu kvenna efist hún stórlega um að þetta frumvarp hafi eitthvert vægi í þeirri baráttu. Þetta kemur fram í athugasemdum Agnesar um framvarpið, sem hún ritar „sem kristin kona og biskup Íslands," eins og þar stendur.

Agnes lýsir stuðningi við þann hluta frumvarpsins sem kveður á um að konur taki sjálfar þá erfiðu ákvörðun sem þar er til umfjöllunar. Hún tiltekur síðan tvö atriði sem henni þykir sérlega umhugsunarverð.

Hugnast hvorki  hugtakið „þungunarrof“ né lengri frestur

Annars vegar hugnast henni ekki að nota hugtakið „þungunarrof" í stað fóstureyðingar. Segir hún orðið þungunarrof ekki vísa á neinn hátt „til þess lífs sem sannarlega bærist undir belti og er vísir að nýrri mannveru." Biskup segir að samkvæmt kristinni trú sé lífið heilagt, gjöf sem Guð gefur og tekur, en hlutverk mannanna sé að varðveita það og vernda.

Hitt atriðið er breyting tímarammans, það er, að þungunarrof skuli almennt heimilt fram að 22. viku meðgöngu, í stað 12. viku eins og nú er. Segir hún íslenskt samfélag hafa fundið ákveðið „jafnvægi á milli hinna ólíku sjónarmiða um rétt hinnar verðandi móður yfir eigin líkama og rétt fósturs til lífs, þrátt fyrir þær mótsagnir sem því [fylgi].“ Nýju tillögurnar raski þessu jafnvægi og veki „jafnvel upp á ný grundvallar spurningar sem við ættum auðvitað alltaf að spyrja okkur að varðandi mannhelgina og framgang lífs hér í heimi," skrifar biskup. Því hafi hún óskað eftir því við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin vinni álit á frumvarpinu út frá sínum forsendum.