Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Birtingin mistök segir ritstjórinn

12.08.2012 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Birting nafnlausrar auglýsingar gegn samkynhneigðum í Fréttablaðinu í gær, var mistök, segir Ólafur Stephensen ritstjóri blaðsins. Á morgun stendur til að nafngreina í blaðinu þann sem keypti auglýsinguna.

Þessi auglýsing birtist aftarlega í Fréttablaðinu í gær. Í henni er vitnað í fyrra bréf Páls Postula til Kórintumanna, undir yfirskriftinni - ef kristið fólk þegir, þá talar biblían....og þessari auglýsingu er greinilega beint gegn samkynhneigðu fólki, en Gleðigangan, hápunktur Hinsegin daga, var einmitt haldin í gær.

Ólafur segir að það hafi ljóslega verið mistök að birta þessa auglýsingu án þess að fram kæmi hver stæði fyrir henni, en í fjölmiðlum í gær var greint frá því að það hafi verið prestur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi, Timur Zolotuskiy. Ekki náðist í hann í morgun. Ólafur segir að á morgun standi til að nafngreina í blaðinu þann sem keypti auglýsinguna. Guðmundur Helgason, formaður Samtakanna 78 segir að samtökin fordæmi birtingu þessarar auglýsingar; þau viðhorf sem fram komi í henni séu ekki ríkjandi í íslensku samfélagi, og dæmi sig í rauninni sjálf.