Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Birti mynd af sér og Sindra Þór í Amsterdam

22.04.2018 - 23:32
Mynd með færslu
Hafþór Logi er vinstra megin á myndinni en Sindri Þór til hægri. Mynd: nn - Snapchat
Hafþór Logi Hlynsson, sem hlotið hefur fjölda refsidóma fyrir fíkniefnabrot á síðustu árum, birti í dag mynd af sér og Sindra Þór Stefánssyni þar sem þeir standa í sólinni á götu í Amsterdam, við þriðja mann. Myndin er rækilega merkt myllumerkinu #teamsindri og eru þeir félagar glaðbeittir að sjá.

Sindri Þór var handtekinn í Amsterdam í dag. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, svaraði ekki spurningu fréttamanns um það, hvort hann hefði gefið sig fram við lögreglu í Amsterdam af fúsum og frjálsum vilja eða verið handtekinn.

Sem fyrr segir hefur Hafþór Logi hlotið fjölda refsidóma fyrir fíkniefnabrot í gegnum árin. Í janúar á þessu ári var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir aðild sína að umfangsmiklu smygli á fíkniefnum og öðrum ólöglegum efnum árið 2012. Hann var einnig dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi árið 2014, fyrir stórfellt fíkniefnabrot, og var það 16. refsidómur Hafþórs Loga.