Birna lét lækka laun sín um 600 þúsund

11.02.2019 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, voru lækkuð um 14,1 prósent að hennar frumkvæði í nóvember. Heildarlaun hennar hafa hækkað um 4,6 prósent síðastliðin tvö ár á sama tíma og launavísitalan hefur hækkað um 13,2 prósent. „Ákvörðunin var tekin í ljósi stöðunnar í íslensku atvinnulífi og kjaraviðræðna sem nú standa yfir,“ segir í tilkynningu frá Eddu Hermannsdóttur, forstöðumanns markaðs- og samskiptasviðs.

Þá segir í tilkynningu Eddu að laun bankastjóra og framkvæmdastjóra muni ekki hækka á þessu ári né taka samningsbundnum hækkunum ef til þeirra kemur. Edda segir í samtali við fréttastofu að laun Birnu hafi fyrir lækkunina verið 4,8 milljónir á mánuði en eftir hana 4,2 milljónir. Laun Birnu er engu að síður hærri en laun bankastjóra Landsbankans sem er með 3,8 milljónir á mánuði. Íslenska ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti. 

Hart hefur verið deilt á bankaráð Landsbankans og bankastjóra bankans eftir að greint var frá því að laun hans hefðu hækkað um 17 prósent eða 550 þúsund krónur. Í tilkynningu frá bankanum síðdegis í dag kom fram að gagnrýnin væri skiljanleg. „Að mati bankaráðs hefur lengi verið ljóst að breyta þyrfti kjörum bankastjóra Landsbankans og færa þau nær þeim kjörum sem starfskjarastefnan kveður á um.“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í kvöldfréttum RÚV að henni fyndist þessi launahækkun siðlaus og úr takti við allt. Engu máli skipti hvort sú hækkun kæmi fyrir undirritun kjarasamninga eða eftir. Hún sagði laun bankastjórans ellefu sinnum hærri en gjaldkerans í bankanum. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi