Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Birkir Jón vill feta í fótspor Hvergerðinga

26.03.2017 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Bæjarráð Kópavogs samþykkti á fundi sínum á fimmtudag tillögu Birkis Jóns Jónssonar, oddvita Framsóknarflokksins, um að bæjarstjórinn taki saman minnisblað um kosti þess að veita starfsmönnum bæjarins möguleika á launuðu fríi einum mánuði fyrir settan fæðingardag. Bæjarráð Hveragerðis samþykkti fyrir viku að gefa óléttum starfsmönnum bæjarins kost á því að taka sér launað frí mánuði fyrir settan fæðingardag.

Birkir hefur lengi látið sig þessi mál varða og var meðal annars formaður starfshóps sem móta átti tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum hér á landi.

Hann segir í greinargerð sinni að Kópavogsbær sé einn stærsti vinnuveitandi landsins og því mikilvægt að bærinn veiti starfsfólki sínu svigrúm til að samræma fjölskyldu-og atvinnulíf. Brýnt sé að Kópavogsbær skoði kosti og galla þess að feta þá sló sem Hveragerðisbær hefur markað.

Tillaga Birkis var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn mótatkvæði Karenar E. Halldórsdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Karen og Ása Richardsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, óskuðu síðan eftir því að bærinn tæki einnig saman upplýsingar um hversu margir starfsmenn færu í veikindaleyfi fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Á vef Hveragerðisbæjar kemur fram að bæjaryfirvöld telji mikilvægt að koma til móts við starfsmenn sína á stóru stundunum í lífi þeirra og létta undir þar sem það er hægt. „Það má færa sannfærandi rök fyrir því að jafn stórum vinnuveitenda og Hveragerðisbæ beri að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeim tilgangi að auðvelda starfsmönnum að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV