Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Birgitta skilar umboði til forseta

12.12.2016 - 14:50
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hyggst skila umboði til stjórnarmyndunar til forseta Íslands klukkan fimm í dag. Því er ljóst að ekki verður af formlegum stjórnarmyndunarviðræðum Pírata, Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar.

Píratar fengu stjórnarmyndunarumboðið fyrir tíu dögum og hafa óformlegar viðræður verið í gangi síðan. Niðurstaða um tveggja klukkustunda fundar formanna flokkanna fimm á nefndasviði í hádeginu var að fara ekki í formlegar viðræður. 

Birgitta tilkynnti fréttamönnum þessa niðurstöðu skömmu fyrir klukkan þrjú í dag. Það væri of mikið sem steytti á, sagði Birgitta, og nefndi sjávarútvegsmálin sérstaklega. Hún vildi aðspurð ekki nefna hvaða flokkar hefðu ekki getað náð saman. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur sagt að stórt bil hafi verið milli flokksins og annarra flokka í viðræðunum.  

Birgitta heldur til fundar við forsetann klukkan 17 í dag til að skila umboðinu. Hún var sú þriðja sem forsetinn fól stjórnarmyndunarumboð. Áður höfðu fengið umboðið þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.