Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Birgitta gefur ekki kost á sér áfram

16.09.2017 - 10:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, ætlar ekki að gefa kost á sér í næstu þingkosningum. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Birgitta að ekkert geti fengið hana til að skipta um skoðun.

Birgitta hafði lýst sömu skoðun í Fréttablaðinu í byrjun ágúst og þá sagst ætla að hætta í lok kjörtímabilsins, hvort sem það yrði stutt eða langt. Í fréttum Sjónvarps í gær sagði Birgitta erfitt að ganga á bak orða sinna en að hún hefði ekki séð fyrir að kjörtímabilið yrði svona stutt.

Birgitta náði fyrst kjöri á þing fyrir Borgarahreyfinguna árið 2009.

Birgitta segist í færslunni snortin af mikilli hvatningu sem hún hafi fundið fyrir þvert á flokka og í grasrót Pírata. Hún hafi ekki viljað koma með þessa yfirlýsingu strax vegna þess að kjörtímabilinu er ekki lokið þótt ríkisstjórnin sé fallin. „En það hefur verið ákall um að ég svari skýrt og afgerandi, bæði meðal félagsmanna sem og meðal okkar pólitísku andstæðinga. Ég vil ekki halda fólki í óþarfa óvissu,“ segir hún. 

Nú þegar ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er sprungið eru líkur á því að boðað verði til kosninga á næstu mánuðum. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi í gær að hann teldi ekkert annað að gera í stöðunni en að boða til kosninga og nefndi nóvember sem ákjósanlegan tíma. Bjarni gengur á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta klukkan ellefu í dag. Óvíst er hvort forsetinn fellst á tillögu Bjarna um þingrof og ekki liggur heldur fyrir hvernig landinu verður stjórnað fram að kosningum, ef til þeirra kemur. 

Forsetinn hefur boðað forystumenn allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi á sinn fund í dag. Bjarni er fyrstur þeirra og síðan koma aðrir koll af kolli. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG kemur klukkan 13.00, Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata á fund með forseta klukkan 13.45, klukkan 14.30 mætir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins á Bessastaði, og 15.15 tekur forsetinn á móti Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar.

Klukkan 16.00 er röðin komin að Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, og síðastur á fund forseta verður Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar klukkan 16.45.

 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV