Birgir vill útrýma kynferðisofbeldi á Alþingi

30.01.2019 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hélt innblásna ræðu á Alþingi í dag um kynferðisofbeldi gegn þingkonum. Birgir sagði mikilvægt að karlkyns þingmenn tækju höndum saman og útrýmdu ofbeldi gegn kvenkyns kollegum þeirra. Þá lyfti Birgir upp skilti sem á stóð „Not in my parliament", eða „Ekki á mínu þingi”.

Vill flokksráðsfund vegna Gunnars Braga og Bergþórs

Birgir sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann lýsti því yfir að hann hafi óskað eftir því við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, að boðað verði til flokksráðsfundar vegna þeirrar stöðu sem upp er komin eftir Klausturmálið. Hann telur ekki rétt að Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason geti gengið að óbreyttu fyrirkomulagi að trúnaðarstörfum sínum fyrir flokkinn vísum.

Í höndum karlanna á þinginu að útrýma ofbeldi

Birgir hélt ræðu á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins. Þar vitnaði hann til rannsóknar sem gerð var á vegum Evrópuráðsins, meðal 80 þingkvenna í 45 löndum, þar sem algengi kynferðislegs ofbeldis, andlegs og líkamlegs, var skoðað. 

„Niðurstöðurnar eru sláandi. Daglega verða þingkonur í Evrópu fyrir kynferðislegu ofbeldi. Rúmlega 40 prósent af þingkonum í þjóðþingum Evrópu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, og í 70 prósent tilfella eru gerendurnir karlkyns þingmenn. Helmingur þingkvenna hefur orðið fyrir kynferðislegum athugasemdum þar sem mikill meirihluti gerenda eru karlkyns þingmenn. það sem er einnig sláandi er hversu lágt hlutfall þessarra kvenna kæra verknaðinn, eða einungis 20 prósent,” sagði Birgir. „Afleiðingarnar eru margvíslegar, kvíði, svefnleysi og ýmisleg heilsufarsleg vandamál. Auk þess hefur þetta neikvæð áhrif á framgang þeirra í stjórnmálum. Herra forseti. Það er í höndum okkar karlkyns þingmanna að uppræta þessa miklu meinsemd sem viðgengst í öllum þjóðþingum Evrópu, einnig hér á landi.” 

Not In My Parliament

Birgir tók fram að hann hafi sótt þing Evrópuráðsins í síðustu viku, ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni VG, og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata, þar sem  þar sem hleypt var af stokkunum átaki gegn kynferðislegu ofbeldi í þjóðþingum. Átakið heitir Not In My Parliament, eða Ekki á mínu Alþingi. 

Hann lyfti því næst um skilti með slagorðinu á og skoraði á forseta Alþingis að láta prenta svona spjöld á íslensku. 

„Taka síðan mynd af okkur þingmönnum saman þar sem við sýnum samstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi gegn þingkonum. Háttvirtir þingmenn, stöndum saman,” sagði Birgir að lokum og uppskar mikið „heyr, heyr” úr þingsal.  

Rósa Björk tók undir með Birgi í sinni ræðu og undirstrikaði að það þyrfti að útrýma karlrembu á þinginu. „Virðing Alþingis er undir,” sagði Rósa Björk. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi