Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíóást: Vakti strax sterk viðbrögð hjá mér

Mynd: RÚV / RÚV

Bíóást: Vakti strax sterk viðbrögð hjá mér

03.05.2019 - 13:34

Höfundar

Leikstjórinn Reynir Lyngdal kolféll fyrir kvikmyndinni The Others. Hann hvetur fólk sem hefur séð myndina áður til að horfa í annað sinn, því vissir þræðir í henni verða ekki ljósir fyrr en við annað áhorf.

Kvikmyndin The Others er draugasaga frá árinu 2001 um konu sem býr með börnum sínum tveimur í húsi þar sem hún verður sannfærð um að sé reimt. Myndin vakti mikla athygli á sínum tíma, sér í lagi fyrir nútímalegan og óvæntan viðsnúning á sögunni.

The Others er eftir leikstjórann Alejandro Amenábar sem einnig skrifar handritið og gerir tónlistina í myndinni. Þetta er fyrsta mynd hans á ensku en áður hafði hann gert myndina Abre los ojos sem var endurgerð á ensku sem hin margrómaða Vanilla Sky. Leikstjórinn fékk einnig Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndina The Sea inside.

Reynir Lyngdal fór á myndina í bíó þegar hún var nýkominn út og varð djúpt snortinn. „Hún hafði strax mjög sterk áhrif á mig. Það sem er eiginlega merkilegast við þessa mynd er að hún byggir á einni stórri hugmynd, eins og allar góðar bíómyndir gera oft, en hugmyndin kemur ekki almennilega í ljós fyrr en í lokin.“ Hann hvetur þá sem þegar hafa séð myndina til að horfa á hana í annað sinn. „Það er nefnilega viss þráður í henni sem maður fattar betur þegar maður horfir á hana í annað skipti.“ 

Frammistaða stórleikkonunnar Nicole Kidman vakti hrifningu Reynis. „Það er mjög áhugavert að fylgjast með henni í myndinni, hún er algjörlega frábær.“

Kvikmyndin The Others verður sýnd á laugardagskvöldið klukkan 22.10 Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.