Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíóást: „Takið eftir myndmálinu“

Mynd: RÚV / RÚV

Bíóást: „Takið eftir myndmálinu“

26.04.2019 - 13:38

Höfundar

Jane Campion er eini kvenleikstjórinn sem hefur hlotið Gullpálmann á Cannes kvikmyndahátíðinni, en hann fékk hún fyrir kvikmyndina The Piano.

The Piano er verðlaunakvikmynd frá árinu 1993 og segir frá flóknum ástarþríhyrningi þriggja ólíkra persóna. Skosk mállaus kona, sem hefur ekki mælt orð af munni síðan hún var sex ára en tjáir sig með táknmáli, er seld í hjónaband til Nýja-Sjálands. Konan tekur dóttur sína Flóru með sér en dóttir hennar túlkar fyrir hana.

Nýsjálenski leikstjórinn Jane Campion hlaut Gullpálmann fyrir myndina en hún er enn í dag eina konan sem hefur hlotið hin virtu verðlaun. Það eru þau Holly Hunter og Sam Neill sem fara með aðalhlutverkin, en dóttur Holly leikur Anna Paquin. Hún var þá ellefu ára en hefur síðar hefur leikið í X Men myndunum og í True Blood svo eitthvað sé nefnt. Þetta er fyrsta stóra hlutverk Önnu en hún hlaut Óskarsverðlaunin fyrir frammistöðu sína. Vera Sölvadóttir leikstjóri var nýflutt til Frakklands þegar hún sá myndina í fyrsta skipti um það leyti sem myndin var nýkomin út.

„Það var mikið umtal um þessa mynd þá þar sem Jane Campion vann Gullpálmann í Cannes fyrir myndina. Það er mjög margt sérstakt við þessa mynd. Ekki veit ég hvernig það hefur verið fyrir leikstjórann að sannfæra framleiðendur að gera mynd sem fjallar um konu sem getur ekki talað og tjáir sig í gegnum píanó. Það er ekki beint söluvænt en tókst vel til,“ segir Vera og biðlar til áhorfenda að taka sérstaklega eftir myndmálinu. „Ég er hrifin af myndum sem eru ekki mikið að nota samtöl en í stað samtala notast The Piano við myndmál og myndlíkingar. Hún er dýpri en hún virðist í fyrstu sýn.“ 

Veru finnst leikurinn í myndinni frábær, sérstaklega hjá hinni kornungu Önnu Paquin sem á stórleik. „Þessi magnaða stelpa Anna Paquin var aðeins ellefu ára þegar hún vinnur þessi verðlaun fyrir leik sinn í myndinni. Það er þess virði að horfa á hana bara fyrir þessa litlu stelpu,“ segir Vera. 

Kvikmyndin The Piano verður sýnd á laugardagskvöldið klukkan 22.35 Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bíóást: Feðgarnir báðir í hlutverki Jesú

Kvikmyndir

Bíóást: Hittir mann beint í hjartastað

Kvikmyndir

Bíóást: Ógleymanleg lífsreynsla

Tónlist

Eurovision drama í íslenskum smábæ