Bíóást: Karlinn í korselettinu

Mynd:  / 

Bíóást: Karlinn í korselettinu

23.03.2018 - 16:53

Höfundar

„Ég var búin að vera forvitin í mjög langan tíma um hvað var í gangi í þessari mynd,“ segir Berglind Pétursdóttir, einnig þekkt sem Berglind Festival, um kvikmyndina The Rocky Horror Picture Show sem sýnd er á RÚV á laugardagskvöldið.

Berglind sá myndina fyrst þegar hún var þrettán ára gömul, en hún segist hafa eignast myndina á DVD disk síðan hún var ellefu ára. „En það var ekki til DVD tæki á heimilinu,“ segir hún og bætir því við að jólin þegar slíkt tæki kom inn á heimilið hafi verið mjög frelsandi stund, „að geta horft loksins á þessa mynd sem ég var búin að stilla upp í herberginu mínu af því mér fannst coverið svo kúl.“  Hún lýsir hulstrinu nánar: „Þessi karl í korseletti, hælaskóm og sokkabuxum. Liggjandi á þessum rauða munni.“ Umræddur karl í korselettinu er aðalpersóna myndarinnar, vísindamaðurinn Frank N. Furter. „Hann er svolítið scary og nettur kannski líka,“ segir Berglind.

Heimatilbúnir leikmunir

Myndin er frá 1975 og að sögn Berglindar floppaði myndin í upphafi en náði síðan stöðu költ myndar þegar fólk hóf að flykkjast á miðnætursýningar og taka með sér leikmuni og taka þannig þátt í sýningunni. „Þetta snýst svolítið um að bara vera þú sjálfur og bara gera það sem þú fílar þótt að það sé skrýtið,“ segir hún og bætir við að greinilega séu margir sem hafa fundið þörf til að setja sig í spor persónanna.

Hún segir að mjög gaman sé að taka þátt og bendir á að áhugasamir geti fundið leiðbeiningar á netinu og notað heimatilbúna leikmuni. „Það eru hrísgrjón og dagblöð og svona, og svo syngurðu bara og dansar með fyrir framan sjónvarpið.“