Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíóást: Hittir mann beint í hjartastað

Mynd: RÚV / RÚV

Bíóást: Hittir mann beint í hjartastað

12.04.2019 - 10:08

Höfundar

Kvikmyndin Secrets & Lies er í miklu uppáhaldi hjá Magnúsi Karli Magnússyni prófessor. „Ég sá hana veturinn '96-'97 og varð alveg hugfanginn eins og held ég margir sem hafa séð mynd eftir þennan snilldar leikstjóra.“

Secrets & Lies er bresk kvikmynd frá árinu 1996 í leikstjórn Mikes Leigh. Hún segir frá blökkukonunni Hortense sem er virtur augnlæknir og var ættleidd við fæðingu. Þegar móðir hennar deyr ákveður hún að hafa uppi á líffræðilegri móður sinni, sem reynist vera hvít kona af lægri stétt. Í fyrstu afneitar hún Hortense, en með tímanum styrkjast tengslin á milli þeirra. Myndin var tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna, meðal annars fyrir bestu leikstjórn, bestu leikkonu í aðal- og aukahlutverki og sem besta myndin.

„Í þessari mynd nær Mike Leigh alveg sérstöku flugi og nær kannski í fyrsta skipti til almennings enda vakti hún mikla athygli,“ segir Magnús sem segist heillast sérstaklega að eftirminnilegum karakterum myndarinnar. „Maður tengist þeim alveg. Maður sér kosti þeirra og galla en þau koma manni á óvart þegar líður á myndina. Þetta er fólk sem maður þekkir.“

Magnús segir að sérstök aðferðarfræði Mike Leighs í vinnu hans með leikurum geri það að verkum að bæði atburðir og senur verða sérstaklega raunsæjar. „Hann vinnur með leikurunum í 4-6 mánuði áður en myndin hefst og handritið verður til í þessu persónulega samtali leikstjórans við einstaka leikara. Leikararnir vita í raun ekki af sínu samhengi í myndinni fyrr en þeir fara að upplifa það í gegnum ferlið.“

Magnús segir mörg atriði í myndinni standa upp úr og nefnir atriðið þegar mæðgurnar hittast í fyrsta sinn. „Maður upplifir þarna eitthvað persónulegt og hún snertir mann beint í hjartastað þessi mynd.“

Kvikmyndin Secrets & Lies verður sýnd á laugardag kl. 22. Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu, en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd fyrir sig.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bíóást: Ógleymanleg lífsreynsla

Kvikmyndir

Bíóást: Fluga á vegg í lífi fólks í tólf ár

Kvikmyndir

Bíóást: Geta karlar og konur verið vinir?