Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíóást: Feðgarnir báðir í hlutverki Jesú

Mynd: RÚV / RÚV

Bíóást: Feðgarnir báðir í hlutverki Jesú

19.04.2019 - 10:00

Höfundar

„Ég lék sjálfur Jesú í uppfærslu Borgarleikhússins á Jesus Christ Superstar árið 1995. Það hlutverk hafði alls engin áhrif á mig,“ grínast Pétur „Jesús“ Örn Guðmundsson tónlistarmaður. Kvikmyndin verður sýnd í Bíóást á föstudaginn langa.

Söngleikurinn Jesus Christ Superstar eftir Andrew Lloyd Webber og Tim Rice fjallar á fjörugan hátt um raunir Jesú Krists. Árið 1973 kom út samnefnd kvikmynd byggð á söngleiknum í leikstjórn Normans Jewison.

Pétur sá myndina fyrst árið 1990 þegar hann var um 19 ára. Þá hafði vínylplatan með lögum úr söngleiknum varla farið af spilaranum í tvö ár. „Það er rosalega flott að sjá Ted Neely og Carl Anderson leika Júdas og Jesú en samspil þeirra er mjög trúverðugt. Það sem er merkilegt við plötuna á móti myndinni er að einstaka sönglínum er breytt í myndinni, sennilega af því að verkið olli smá usla í trúarsamfélaginu. Þeir eru aðeins að tipla á pólitísku tánum."

Faðir Péturs lék Jesú í fyrstu uppfærslunni á söngleiknum á Íslandi árið 1973. Það er einmitt sama ár og myndin kom út. Rúmum 20 árum síðar endurtók Pétur sjálfur leikinn og lék Jesú í uppfærslu Borgarleikhússins. „Ég sem söngvari varð fyrir miklum áhrifum af vínylplötunni. Hún hafði mikil áhrif á mig sem söngvara og tónlistarmann og mér fannst þetta alltaf vera eitthvað sem ég þyrfti að stúdera vel og mastera. Svo kom það sér vel nokkrum árum síðar að ég var sjálfur fenginn til að leika Jesú. Það hlutverk hefur fylgt mér síðan en alls ekki haft nein áhrif á mig," segir Pétur Jesús og glottir.

Kvikmyndin Jesus Christ superstar verður sýnd á föstudaginn langa klukkan 22.05. Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd fyrir sig.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bíóást: Hittir mann beint í hjartastað

Kvikmyndir

Bíóást: Ógleymanleg lífsreynsla

Kvikmyndir

Bíóást: Geta karlar og konur verið vinir?

Tónlist

„Þetta er bara stórkostleg tónlist“