Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bindur vonir við að fullorðnir fái bætur

11.04.2019 - 21:05
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar. - Mynd: RÚV / RÚV
Sú ákvörðun ríkisins að greiða fötluðum sem voru vistaðir sem börn á tilteknum vistheimilum er mjög jákvæð, að mati Bryndísar Snæbjörnsdóttur, formanns Þroskahjálpar. Að sama skapi eru það þó vonbrigði, að hennar mati, að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að greiða fólki sem varð fyrir illri meðferð á fullorðinsaldri bætur, að sinni.

„Mér finnst þetta auðvitað mjög jákvætt að stjórnvöld séu með formlegum hætti búin að boða það að það verði sett fram frumvarp þar sem að það verði fundin leið eða sett lög um um það hvernig sé hægt að mæta börnum sem voru vistuð á öðrum stöðum en Kópavogshæli. Það er mjög jákvætt skref og við auðvitað fögnum því mjög,“ sagði Bryndís í Kastljósi í kvöld. 

Á sama tíma eru það ákveðin vonbrigði að ekki sé kveðið fastar á um þá sem voru vistaðir sem fullorðnir, segir Bryndís. Katrín Jakobsdóttir sagði í dag að það stæði til að skoða það og bindur Bryndís miklar vonir við að það verði gert.

Um 1.200 manns sem hafa sætt illri meðferð á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins hafa fengið greiddar sanngirnisbætur. Lögin um þær bætur áttu þó aðeins við fólk sem var vistað sem börn á ákveðnum heimilum. Fjöldi fólks fékk engar bætur. Bryndís segir umhugsunarvert að þegar lög um vistheimili voru sett árið 2007 hafi ekki verið gert ráð fyrir að skoða aðbúnað á stöðum þar sem fötluð börn voru vistuð, þrátt fyrir að ýmsir, þar á meðal starfsfólk, hafi lýst ömurlegum aðstæðum þeirra.

Þá segir Bryndís að í skýrslu um Kópavogshæli hafi verið bent á að ljóst væri að fullorðið fólk hafi verið beitt alvarlegu ofbeldi og sætt illri meðferð. Einn þeirra er Ólafur Hafsteinn Einarsson, sem var vistaður í fangelsinu að Bitru. Þar var hann beittur harðræði og læstur inni þó að hann væri ekki fangi. Fólk í hans stöðu hafi enn sem komið er ekki fengið nein loforð um bætur. Það hafi þó verið boðað til samráðs og Bryndís vonar að þar gefist tækifæri til að koma sjónarmiðum hans á framfæri. „Ég vona að það verði fundin leið þannig að fólk geti tilkynnt ákveðinn stað og fengið hlustun og úrlausn. 

Fjallað var um sögu Margrétar Estherar Erludóttur í Kveik í gær. Hún hefur lengi barist fyrir því að fá greiddar sanngirnisbætur vegna vanrækslu og illrar meðferðar þegar hún var vistuð á fósturheimilum í æsku. Bryndís kveðst hafa skilning á því að erfitt sé að rannsaka brot sem voru framin á einkaheimilum fyrir áratugum síðan. Því sé mjög brýnt að ríkið búi þannig um hnútana að fólk í sömu stöðu og Esther geti leitað til stjórnvalda varðandi úrlausn sinna mála enda hljóti alltaf að vera til einhver skrifleg gögn. „Þannig getur fólk fengið aðstoð án þess að fá sér lögfræðing og fara í gegnum dómskerfið.“

Bryndís kveðst vongóð um að stjórnvöld hugi að öllum sem hafi sætt illri meðferð á vistheimilum, bæði börnum og fullorðnum. Hún hafi fundað með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra í janúar og fengið góð viðbrögð.