Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Binda miklar vonir við Dust514

22.03.2012 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP frumsýndi í dag nýjan leik fyrir PlayStation leikjatölvur. Fyrirtækið bindur miklar vonir við leikinn, sem verður fyrstur leikja ókeypis fyrir Playstation.

Leikurinn heitir DUST 514 og er skotleikur sem margir geta tekið þátt í. Hann gerist í drungalegu umhverfi á plánetum EVE-online, tölvuleik CCP sem gefin var út árið 2003 fyrir PC-tölvur. Leikurinn er fyrsti tölvuleikurinn sem  tengir saman sýndarheim PC tölva og leikjatölva.  Hann verður einnig fyrsti leikurinn sem notendur Playstation geta sótt og leikið ókeypis.

Leikurinn var frumsýndur í dag á árlegri samkomu aðdáenda leikja fyrirtækisins. Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir að gróðavonin liggi í því selja hluti sem leikendur þurfi að nota  í leiknum. 

Gestir á samkomunni, fá nú að prófa leikinn og gagnrýna, en CCP reiknar með að hann verði aðgengilegur í haust, og bindur miklar vonir við hann.