Binda áfram vonir sínar við svart gull

10.10.2016 - 18:10
Drekasvæðið
 Mynd: RÚV
Þrátt fyrir lágt olíuverð á heimsvísu og áform íslenskra stjórnvalda um að auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa er engan bilbug að finna á handhöfum olíuleitarleyfanna tveggja á Drekasvæðinu. Í Noregi hefur olíugeirinn orðið fyrir skelli en Norðmenn eru þó hvergi af baki dottnir þegar kemur að leit og vinnslu.

Handhafar annars leyfisins, kínverska félagið CNOOC, útibú norska ríkisolíufélagsins, Petoro Iceland og Eykon Energy,  funduðu með fulltrúum Orkustofnunar í lok september. Á fundinum greindu þeir frá því að fyrstu niðurstöður tvívíðra mælinga, sem gerðar voru síðastliðið haust, væru jákvæðar. 

„Það eru góðar vísbendingar um að eitthvað sé þarna undir en auðvitað veit maður ekkert enn þá. Gögnin eru mikið betri en þau sem við höfðum áður,“

segir Þórarinn Sveinn Arnarson, verkefnisstjóri olíuleitar hjá Orkustofnun. Tvívíða mælingin fór þannig fram að rannsóknarskip sigldi um svæðið og loftbyssum sem gefa frá sér hljóðmerki var beint að hafsbotninum. Merkin fara djúpt ofan í jarðlögin. Skipið dró svo átta kílómetra langan kapal yfir svæðið og hann nam bergmálið sem jarðlögin gáfu frá sér. Þannig fékkst ákveðin mynd af því hvað kann að leynast undir. 

Þrjú leyfi gefin út, tvö eftir

Alls hafa þrjú olíuleitarleyfi verið gefin út, þar af eru tvö í gildi. Fyrstu tvö leyfin voru gefin út í janúar árið 2013. Annað þeirra, sem tekur til 1119 ferkílómetra svæðis, er í höndum Ithaca Petroleum ehf, Kolvetnis ehf og Petoro Iceland. Niðurstöður tvívíðra greininga þeirra á berginu liggja ekki fyrir að sögn Þórarins. 

Hitt leyfið féll í hendur Faroe Petroleum Norge, Íslensks kolvetnis ehf og Petoro Iceland. Það tók til 2704 ferkílómetra svæðis. Í janúar í fyrra gáfu forsvarsmenn Faroe Petroleum leyfið eftir. Félagið taldi berggrunninn ekki nægilega árennilegan og því of áhættusamt að gangast við frekari skuldbindingum. 

Leyfi CNOOC, Eykon Energy og Petoro Iceland var gefið út í janúar 2014. CNOOC á langstærstan hlut eða 60%. Eykon Energy á 15% hlut og Petoro Iceland 25% hlut. Leyfið nær yfir rúmlega 6000 ferkílómetra svæði.

Vinstri grænir og Samfylkingin tóku U-beygju

Það var ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar sem samþykkti að veita fyrstu sérleyfin. Þá hafði verið deilt um það innan flokks Vinstri grænna hvort rétt væri að hefja olíuleit á Drekasvæðinu. Síðar áttu flokkarnir eftir að taka U-beygju. Í ályktun frá landsfundi Vinstri grænna frá í fyrra segir að flokkurinn leggist gegn hugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslensku yfirráðasvæði, þar með talið olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Frekari olíuvinnsla sé tímaskekkja og vinni gegn samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Samfylkingin samþykkti svipaða ályktun á sínum landsfundi. Vinda ætti ofan af leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir að þjóðin hyggist ekki nýta mögulega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni. Vinnsla jarðefnaeldsneytis sé ekki í samræmi við hagsmuni Íslendinga, skapi hættu á mengunarslysum og ógni fiskimiðum. 

Segir leyfin standa

Þórarinn segir leyfin standa, ætli stjórnvöld sér að draga þau til baka þurfi þau að öllum líkindum að greiða leyfishöfum sem hafi lagst í mjög dýrar rannsóknir háar skaðabætur. Hann getur ekki gefið upp hversu dýrar rannsóknirnar eru þar sem hann er bundinn fyrirtækjunum trúnaði. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Rannsóknaráætlanir í tengslum við olíuleitarleyfin eru áfangaskiptar. Fyrsti áfanginn er að gera tvívíðu mælingarnar. Ákveði handhafarnir að ráðast í næsta rannsóknarfasa, þrívíðar mælingar, eru þeir skuldbundnir til að ljúka honum. 

„Þeir voru mjög jákvæðir eftir þessar niðurstöður og auðvitað er ekki komið að því að þeir skuldbindi sig til að gera þrívíðu mælingarnar, það gerist í janúar 2018 en þeir eru með sína áætlun sem miðast við að vera tilbúnir til að fara í slíkt.“ 

Gert er ráð fyrir að þrívíðu mælingarnar á vegum CNOOC og félaga færu fram á árunum frá 2018 til 2022. Að því loknu stæðu handhafarnir aftur frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort þeir vilji láta leyfið af hendi eða skuldbinda sig til þess að halda rannsóknum áfram. Þriðji og síðasti áfangi rannsóknarferlisins felur í sér að bora rannsóknarholur. Áætlað er að það taki fjögur ár að ljúka honum. Ef olía finnst og leyfishafar uppfylla öll rannsóknarskilyrði gæti vinnsla á svæðinu því hafist árið 2026. Leyfishafi á forgangsrétt á svæðinu og getur valið að framlengja leyfi sitt um allt að þrjátíu ár. Það þýðir að kínverska olíufélagið, CNOOC, Eykon Energy og Petoro Iceland, gætu unnið olíu á svæðinu frá árinu 2026 til ársins 2056. 

Meiri áhætta og meiri ávinningur

Þórarinn segir fyrirtæki taka meiri áhættu með því að leita á nýjum svæðum, mögulegur ávinningur þeirra sé þó líka meiri þar sem það eru meiri líkur á því að finna stórar lindir. Af þessum ástæðum hafi ný leitarsvæði ákveðið seiðmagn í augum olíufyrirtækja. Þórarinn segir að á afskekktu svæði eins og Drekasvæðinu þurfi lindin í raun að vera mjög stór, annars sé ekki hagkvæmt að ráðast í vinnslu. 

73 milljónir í tekjur

Greiðslur leyfishafa til ríkisins eru háðar stærð leyfissvæðis. Fyrstu sex ár rannsóknartímabilsins greiða þau tíu þúsund krónur á hvern kílómetra. Í ár nema tekjur ríkisins af leitinni rúmlega 73 milljónum. Frá og með sjötta starfsári hækka svæðisgjöldin árlega um tíu þúsund krónur á ferkílómetra. 

„Þetta er bara á meðan rannsóknartímabilið er og með þessari stighækkun er verið að hvetja menn til þess að gefa eitthvað eftir af sínu landsvæði, svo þeir séu ekki að sitja á mjög stórum svæðum. Svo ef af vinnslu kemur fara að koma inn skatttekjur.“

Þórarinn segir að ríkissjóður myndi hafa miklar tekjur af vinnslunni. 

epa02427936 (FILE) A file photo dated 17 April 2000 of the world's largest natural gas platform Aasgard-B being towed from Kvaerner Rosenberg Shipyard near Stavanger on the first stage of its journey to its North Sea destination. Norwegian energy
 Mynd: EPA - SCANPIX NORWAY FILE
Borpallur á vegum Statoil.

Olíuverð er í mikilli lægð og mikið umframmagn á markaði. OPEC, samtök ríkja sem flytja út olíu, samþykktu nýverið að draga úr framleiðslu í þeim tilgangi að mjaka verðinu upp á við. Bandaríska blaðið Wall Street Journal segir þá sem spá fyrir um þróun á olíumarkaði tortryggna gagnvart samtökunum og loforðum þeirra, spár markaðsrýna geri því ráð fyrir áframhaldandi verðlækkunum.

Gömul verslunarhús Hansakaupmanna í Björgvin (Bergen) í Noregi.
 Mynd: Wikipedia
Um 80% af hráolíuframleiðslu í Noregi fer fram í grennd við Bergen.

Fleiri þúsund manns hafa misst vinnuna vegna samdráttar í norska olíugeiranum, framleiðslan hefur dregist saman á þessu ári og kostnaður aukist. Þá hefur dregið verulega úr fjárfestingum undanfarið ár. Þrátt fyrir þetta hafa Norðmenn ekki misst trúna á svarta gullinu. 

Borunarleyfi á þrettán nýjum svæðum

Í janúar á þessu ári úthlutuðu norsk stjórnvöld 56 nýjum sérleyfum til olíuleitar í lögsögu Noregs. Sum leitarsvæðanna eru norðan heimskautsbaugs. Í september hófst svo annað sérleyfaútboð, það 24. Í maí, hálfu ári eftir að ríki heims sameinuðust um að draga úr losun koltvísýrings, veittu norsk stjórnvöld þrettán olíufyrirtækjum borunarleyfi á nýjum svæðum á norðurslóðum, ríkisolíufélagið Statoil var þeirra á meðal. Vinnslusvæðið hafði þá ekki verið stækkað í tvo áratugi. Tord Lien, olíu- og orkumálaráðherra, sagði að nýju leyfisveitingarnar myndu stuðla að fjölgun starfa og auknum hagvexti. Umhverfisverndarsinnar mótmæltu. Samkvæmt Parísarsáttmálanum á að nást kolefnishlutleysi á heimsvísu einhvern tímann á árunum frá 2050 til 2100 og þeim finnst aukin olíuvinnsla stríða gegn því markmiði. 

Stíga á bensíngjöfina þrátt fyrir Parísarsamning

Hvernig getur olíugeirinn stigið á bensíngjöfina nú þegar stefnt er að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Gróðurhúsalofttegunda sem eiga uppruna sinn að rekja til vinnslu en auðvitað fyrst og fremst brennslu olíu, kola og gass. Fjallað var um þetta í fréttaskýringaþætti norska ríkissjónvarpsins, Brennpunkt, í síðustu viku. Helsta olíulobbíista Noregs,  Karl Eirik Schjött-Pedersen, forstjóra hagsmunasamtaka olíuframleiðenda í Noregi, var þar fylgt eftir.

Gasið hluti af lausn vandans

Schjött-Pedersen þreytist ekki á að lýsa því yfir að olíuvinnslan sé undistaða velferðarsamfélagsins. Í hans huga er vinnsla jarðefnaeldsneytis í norskri lögsögu hluti af lausn loftslagsvandans, hann bendir á að með því að nota gas í stað olíu eða kola megi helminga útblástur. Því meira gas sem Norðmenn flytja út, því betra fyrir loftslagið. Hann er vongóður um að sækja megi marga milljarða á hafsbotninn og segir að þrátt fyrir þróun í átt til orkuskipta verði áfram þörf fyrir jarðefnaeldsneyti næstu áratugina.

Hröktu staðhæfingar um yfirburða hreinar framleiðsluaðferðir

Þá segir hann gott að eldsneyti sem nýtt er á heimsmarkaði komi frá Noregi þar sem framleiðslan sé hvergi hreinni. Brennpunkt hrakti þessa staðhæfingu hans, athuganir þáttastjórnenda leiddu í ljós að útblástur frá mörgum norskum olíuborpöllum er langt yfir heimsmeðaltali og framleiðslan í ríkjum á borð við Sádí-Arabíu er hreinni en framleiðslan í Noregi. Frederic Hauge, formaður umhverfissamtakanna Bellona, segir að Noregur verði að draga verulega úr olíuvinnslu, vilji hann standa við skuldbindingar Parísarsáttmálans, ekki megi opna ný svæði. Vísindamaður sem rætt var við í þættinum tók undir þetta, sagði gasnotkun fela í sér losun, en að það þyrfti að vinna að kolefnishlutleysi. 

epa05022001 A woman walks in front of a poster bearing the message 'Objective 2 degrees' in reference to the projected agreement to limit the increase of global warming to two degrees Celsius, in Paris, France, 12 November 2015. France will host
Veggspjald í París þar sem vísað er til markmiða loftslagsráðstefnunnar. Mynd: EPA

Jonathan Gaventa, forstjóri evrópsku umhverfissamtakanna E3G, segir ímynd Noregs sem umhverfisvæns lands farna að fölna og óljóst hvort norskum stjórnvöldum sé alvara með skuldbindingum sínum í tengslum við Parísarsáttmálann eða hvort þau hugsieingöngu um skjótan olíugróða. Hann segir norskan olíulobbíisma hafa færst í aukana í Evrópu, hann gangi út á að markaðsetja gas sem hreinan valkost og tryggja vilyrði fyrir því að gas verði áfram notað næstu áratugina.  

Átti góðan fund með fulltrúa ESB

Eftir loftslagsþingið í París gekk Schjött-Pedersen ásamt fulltrúum Statoil, til fundar við formann orkumálanefndar Evrópuþingsins til að kanna hvort Evrópusambandsríki myndu áfram kaupa gas frá Noregi og allar nýju fjárfestingarnar væru þess virði. Schjött-Pedersen var hæstánægður með fundinn. 

Spegillinn fjallar áfram um olíuleit á Drekasvæðinu næstu daga. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi