Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bilun truflar póstþjónustu á Seyðisfirði

11.12.2017 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tæknibilun hefur gert það að verkum að hvorki er hægt að afgreiða né taka á móti skráðum póstsendingum á Seyðisfirði. Bilunin kom upp laust eftir hádegi á föstudag.

Íbúi á Seyðisfirði hafði samband við fréttastofu og sagði að engar sendingar hefðu verið afgreiddar í nokkra daga. Pakkasendingar hafa undanfarin ár verið afgreiddar í Samkaup Strax búðinni á Seyðisfirði en vegna þessarar bilunar hefðu menn hvorki getað sent né tekið á móti slíkum sendingum.

Brynjar Smári Rúnarsson forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts staðfesti í samtali við fréttastofu að bilun hefði komið upp um tvö leytið á föstudaginn. Ekki væri vitað hvort bilunin væri í línu eða tæknibúnaði. Verið væri að vinna í því í samstarfi við Vodafone að koma þessu í lag og stefnt sé að því að það verði sem allra fyrst. Brynjar gat þó ekki verið nákvæmari með tímasetningu um hvenær búið væri að laga bilunina. En þangað til verður ekki hægt að taka á móti né senda skráða pakka til og frá Seyðisfirði.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV