Bílfarmar af sígarettustubbum !

Mynd með færslu
 Mynd:

Bílfarmar af sígarettustubbum !

19.05.2014 - 17:07
Sígarettustubbum á víðavangi fjölgar án efa eftir því sem bann við reykingum innandyra verður víðtækara. Ný rannsókn bendir til svo skaðlegra áhrifa af stubbunum þar sem þeir liggja, að hefja þurfi sérstakt átak til að losa náttúruna undan þessum skaðvaldi.

Talið er að um 4.500 milljörðum af sígarettustubbum sé fleygt á víðavangi á heimsvísu ár hvert, og að í Bandaríkjunum vegi haugur sígarettufilters sem fleygt er úti í náttúrunni árlega fimmtíuþúsund tonnum. Það myndi þýða um fimmtíu tonn á Íslandi. 

Stefán Gíslason ræðir um mengun af völdum sígarettustubba úti í náttúrunni í Sjónmáli í dag.

Sjónmál mánudaginn 19. maí 2014 

---------------------------------------------------------

Pistill Stefáns - Sígarettustubbar

Líklega hafa hér um bil allir rekið augun í sígarettustubba sem eiga það til að liggja hér og þar á götum, gangstéttum og á opnum svæðum, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Hver stubbur um sig er ekki ýkja efnismikill og líklega hafa fáir velt fyrir sér áhrifum stubbanna á umhverfið. En hér gildir það sama og annars staðar, að „safnast þegar saman kemur“. Samkvæmt rannsókn sem gerð var nýlega við ríkisháskólann í San Diego í Bandaríkjunum er líklegt að stubbarnir hafi umtalsverð skaðleg áhrif þar sem þeir liggja, svo mjög að þörf sé á sérstökum aðgerðum til að losa náttúruna við það álag sem fylgir þessum skaðvaldi.

Það voru þeir félagarnir Thomas Novotny og Elli Slaughter sem stóðu fyrir rannsókninni í San Diego, eins og nánar er greint frá í grein þeirra sem birtist í maíhefti tímaritsins Current Environmental Health Reports. Að mati Novotny og Slaughter er um 75% af þeim 6.000 milljörðum sígaretta sem framleiddir eru árlega, hent út í náttúruna að notkun lokinni. Sé þetta rétt, lenda sem sagt aðeins um 1.500 milljarðar stubba í öskubökkum, stubbahúsum og öðrum þar til gerðum söfnunarílátum, en hinir 4.500 milljarðarnir lenda á vergangi. Eitthvað af þessu er tínt upp á hreinsunardögum þegar fólk tekur sig saman um að tína rusl í görðum og á fjörum, enda eru stubbar einmitt sá úrgangur sem oftast kemur við sögu í slíkum hreinsunum. Stærsti hlutinn af þessum 4.500 milljörðum liggur þó áfram úti í náttúrunni og heldur þar áfram að velkjast um næstu ár, áratugi og jafnvel aldir.

Það gefur auga leið að vindlingasíur, eða sígarettufilterar eins og þessi fyrirbæri eru kölluð í daglegu tali, eru langstærsti hlutinn af stubbunum og um leið sá hluti sem brotnar síðast niður. Áætlað er að í Bandaríkjunum einum sé árlega hent um 50 þúsund tonnum af filterum. Samkvæmt því lætur nærri að á Íslandi sé þessi tala um 50 tonn á ári. Fimmtíu tonn hljóma kannski frekar sakleysislega, en til að setja þetta í eitthvert samhengi gætu þetta verið svo sem 5 vörubílshlöss. Og þá er ótalinn ýmiss annar úrgangur sem einnig er algengur fylgifiskur reykinga, svo sem vindlingapakkar, kveikjarar, eldspýtnastokkar og sitthvað fleira.

Tóbaksúrgangur inniheldur sömu eiturefnin og aðrar tóbaksvörur, þar með talið nikótín, varnarefni, arsen, blý, etýlfenól og PAH-efni, en öll þessi efni geta haft bráð eiturhrif á lífverur eða valdið krabbameini. Sígarettufilterar innihalda auk þess plasteindir sem brotna seint eða ekki niður í náttúrunni. Þegar þessi efni berast út í umhverfið hafa þau svipuð áhrif og þau hafa á líkama reykingamanna. Þau berast auðveldlega í nærliggjandi vötn, bæði í ferskvatn og sjó, en fiskar og aðrar vatnalífverur eru líkleg til að vera hvað viðkvæmust fyrir áhrifum efnanna. Eituráhrifin koma ekki endilega strax fram, því að efnin geta lekið úr filterunum á löngum tíma, eða allt að 10 árum.

Hugsanlega hefur sú umhverfisógn sem stafar af sígarettustubbum í náttúrunni aukist í kjölfar þess að farið var að banna reykingar innanhúss. Á móti kemur þó að víðast hefur dregið töluvert úr reykingum á sama tíma. Sé litið lengra aftur í tímann er næsta augljóst að tóbaksúrgangur jókst verulega þegar filtersígarettur komu á markað, en sú breyting þótti vissulega mjög til bóta á sínum tíma af heilsufarslegum ástæðum. Þetta kann þó allt af hafa verið á misskilningi byggt. Samkvæmt úttekt Krabbameinsstofnunar Bandaríkjanna virðast filtersígarettur nefnilega hvorki vera heilsusamlegri né öruggari en þær filterslausu. Þess vegna leggja leggja Novotny og Slaughter það til í grein sinni að filtersígarettur verði einfaldlega bannaðar. 

Svo virðist sem lög og lögreglusamþykktir sem banna fólki að henda sígarettustubbum á víðavangi hafi ekki haft nein teljandi áhrif á hegðun reykingamanna. Þess vegna telja Novotny og Slaughter nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að fyrirbyggja skaðleg áhrif sígarettustubba á umhverfið. Árangursríkast væri að tóbaksframleiðendur og umhverfisverndarsamtök tækju höndum saman um að finna bestu leiðirnar í þessu sambandi. Novotny og Slaughter leggja engu að síður til að höfðuð verði mál gegn tóbaksframleiðendum til að gera þá lagalega ábyrga fyrir greiðslu kostnaðar vegna hreinsunar og óþæginda sem stafa af tóbaksúrgangi. Einnig ætti að þeirra mati að merkja sígarettupakka með viðvörunum um umhverfisáhrif stubba og koma upp sérstöku skilagjaldakerfi til að hvetja til söfnunar, rétt eins og gert er með bjórdósir og aðrar drykkjarvöruumbúðir. Annar möguleiki væri að leggja sérstakt endurvinnslugjald á framleiðendur eða skylda þá til að taka við öllum úrgangi sem tengist tóbaksnotkun.

Hvaða leið sem farin verður leggja Novotny og Slaughter áherslu á að tóbaksúrgang sé nær alls staðar að finna, hann hafi mjög neikvæð áhrif á umhverfið og valdi samfélaginu miklum óþægindum. Brýnt sé að menn átti sig á raunverulegum eituráhrifum þessa úrgangs og grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir frekara tjón af hans völdum. Íslendingar sem stæra sig af hreinni náttúru ættu hugsanlega að taka ábendingar þeirra til gaumgæfilegrar íhugunar. Fimm vörubílshlöss af sígarettustubbum er miklu meira en nóg til að valda náttúrunni og samfélaginu armæðu og umtalsverðu tjóni.