Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bílastæðagjöld í Skaftafelli og við Dettifoss

07.06.2017 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur samþykkt að innheimta bílastæðagjöld í Skaftafelli og við Dettifoss. Stjórnarformaður garðsins segir gjaldið verða svipað og á Þingvöllum þar sem greiða þarf 500 króna daggjald fyrir fólksbíl og meira fyrir stærri bíla.

Gjaldtaka á að hefjast strax í júní

Vatnajökulsþjóðgarður hefur um nokkurt skeið undirbúið að innheimta gjöld til að auka sértekjur og mæta kostnaði sem hlýst af miklum straumi ferðamanna í þjóðgarðinum. Á stjórnarfundi í síðasta mánuði var samþykkt hefja gjaldtöku á bílastæðum en til að byrja með verður tekið gjald í Skaftafelli og við Dettifoss. Í bókun stjórnar segir að gjaldtaka skuli hefjist strax í þessum mánuði og gjaldskráin verði samræmd við aðra þjóðgarða á Íslandi.

Hóflegt gjald að mati stjórnarformanns

„Þetta verður nýtt til þess að byggja upp aðstöðu bæði við bílastæðin og þjónustu við þá sem eru að koma sem er meðal annars salernisaðstaða og önnur þjónusta. Einhvern veginn verðum við að geta svarað kalli allra þessara ferðamanna sem koma. En þetta er allt mjög vægt. Þetta er gert í stíl við það sem er gert á Þingvöllum. Þar af leiðandi held ég að þetta þyrfti ekki að raska ró neinna,“ segir Ármann Höskuldsson, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Áforma einnig gjaldtöku við Jökulsárlón

Framkvæmd gjaldtöku í Skaftafelli og við Dettifoss verður boðin út til næstu áramóta í tilraunaskyni. Einnig stendur til að hefja gjaldtöku við Jökulsárlón. Þar er Vatnajökulsþjóðagarður þegar byrjaður að bæta aðstöðu, slétta og afmarka bílastæði og má búast við að salerni verði sett upp innan skamms. Ármann segir að bíða þurfi með bílastæðagjöld við lónið um sinn því ríkið er nýbúið að kaupa jörðina Fell sem liggur að lóninu og enn á eftir að færa svæðið formlega inn í Þjóðgarðinn. „Ef það gerist á næstu mánuðum þá munum við að sjálfsögðu gera það þar líka. Þar þurfum við að svara því sama; bæta alla aðstöðu,“ segir Ármann. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV