Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bílastæðagjöld á Þingvöllum frá 1. maí

17.03.2016 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd: Pmarshal - Wikimedia Commons
Byrjað verður að innheimta bílastæðagjöld á þremur bílastæðum í Þjóðgarðinum á Þingvöllum þann 1. maí. Bílastæðin þrjú eru við gestastofuna á Hakinu, Valhallarplani og svokölluðu Þingplani skammt frá gömlu brúnni yfir Öxará.

Báðu um frest til 1. maí

Sunnlenska greindi fyrst frá málinu. Þingvallanefnd samþykkti síðasta sumar að setja á bílastæðagjöldin og segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður í samtali við Fréttastofu RÚV að staðið hafi til að byrja að innheimta í lok síðasta árs.  Að ósk ferðaþjónustufyrirtækja féllst Þingvallanefnd á að fresta innheimtu til 1. maí. Rukkað verður um 500 krónur fyrir einkabíl í sólarhring, 750 krónur fyrir stóra jeppa, 1500 krónur fyrir litla hópferðabíla með allt að 19 farþega og 3000 krónur fyrir stærri rútur.  Ólafur Örn segir að þegar hafi verið lagt út fyrir töluverðum kostnaði vegna bílastæða og þjónustu. Tekjur af gjaldinu, sem eru áætlaðar um 40 til 50 milljónir króna á ári, fari í að greiða þann kostnað og viðhald.

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV