Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bílalestir mætast á Meðallandsvegi

07.08.2018 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Bryndís Fanney Guðmundsdóttir
Þjóðvegur eitt vestan Kirkjubæjarklausturs er enn lokaður þar sem vatn úr Skaftárhlaupi flæðir yfir hann. Umferð er beint um Meðallandsveg. Þar var mikil umferð í dag en gekk vel, að sögn yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni í Vík.

Staðan á þjóðveginum er óbreytt. Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, hefur þó heyrt frá verktaka að rennslið yfir veginn hafi minnkað lítillega. Ekki er ljóst hvenær vegurinn verður opnaður á ný. „Ég fer austur á eftir ef ég heyri á þeim að það sé alltaf að minnka og lagast þá fer ég og skoða og svo bara met ég það út frá því. Hvort ég nái því fyrir kvöldið eða hvort nóttin taki við. Um leið og það verður möguleiki og fært þá bara förum við í það,“ segir Ágúst.

Mikil umferð um hjáleið

Ökumönnum vel búinna bíla hefur verið hleypt yfir lokaða vegarkaflann á þjóðveginum, á eigin ábyrgð. Mikil umferð hefur verið um hjáleiðina um Meðallandsveg í dag. „Þetta er malarvegur að hluta og ekki breiðasti vegur miðað við þjóðveg. Þarna var bílalest að mæta bílalest og við fórum þarna hringinn stórslysalaust,“ segir hann.

Rennsl Skaftár að minnka mikið

Rennsli Skaftár við Sveinstind fer nú mjög minnkandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni. Rennsli í byggð fer einnig minnkandi og á næstu dögum dregur úr vatnsmagni í ánni. Hins vegar er vatnið í Grenlæk og Tungulæk enn að aukast. Þar skilar sér vatn sem hefur runnið út í Eldhraun og rennur svo í lækina.

Venjulegt sumarrennsli, um 140 rúmmetrar á sekúndu, var í ánni um hádegi síðasta föstudag, 3. ágúst. Á miðnætti sama dag var það komið í 1.000 rúmmetra. Það náði svo hámarki á miðnætti næsta dag og var um 2.000 rúmmetrar á sekúndu. Hlaupið er með stærri hlaupum úr Eystri Skaftárkatli.

Vatnshæð og útbreiðsla flóða í Eldhrauni stjórnast mikið af grunnvatnsstöðu, að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar. Útbreiðsla hlaupvatnsins á yfirborði verður meiri þegar grunnvatnið stendur hátt.