Bikarúrslitin færð á Selfoss

Keflavíkurstelpur fagna Íslandsmeistaratitlinum í Dominosdeild kvenna 2013
 Mynd: Eva Björk

Bikarúrslitin færð á Selfoss

01.10.2015 - 12:47
„Þetta er óvænt ánægja fyrir körfuknattleiksáhugamenn á Suðurlandi, þetta gerðist bara í gærmorgun. Vonandi leysum við þetta verkefni með sóma“, segir Gylfi Þorkelsson formaður körfuknattleiksfélags FSU. Úrslitaleikir Lengjubikarkeppninnar í körfuknattleik verða á Selfossi á laugardaginn.

Þetta er í fyrsta sinn sem úrslit í bikarkeppni í körfuknattleik eru leikin á Selfossi. Tvö  sunnlensk lið eru í undanúrslitum karla, en engin norðlensk lið náðu í undanúrslit í ár. Tvö lið af Suðurnesjum eru í undanúrslitum kvenna sem verða í Keflavík í kvöld. Þá eiga Haukar í Hafnarfirði lið í báðum flokkum. „Við erum afskaplega ánægð að fá þessa körfuboltaveislu heim í Iðu. Þetta er einstakt tækifæri fyrir Sunnlendinga að koma og horfa á körfubolta í hæsta gæðaflokki“, segir Gylfi. 

Leikirnir áttu upphaflega að vera á Sauðárkróki en voru fluttir suður yfir heiðar í samkomulagi Tindastóls og Körfuknattleikssambandsins. Í undanúrslitum kvenna í Keflavík í kvöld keppa heimamenn við Valsmenn og Grindvíkingar mæta Haukum. Undanúrslit karla eru í Iðu á Selfossi annað kvöld þegar heimamenn í FSU mæta Stjörnunni og Þór Þorlákshöfn keppir síðan við Hauka. Úrslitaleikirnir eru á laugardaginn í Iðu á Selfossi, í kvennaflokki klukkan 14 og í karlaflokki 16.30.