Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bíður nýs þings að leiðrétta möguleg mistök

20.11.2017 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðherra segir unnið að breytingum á útlendingalögum sem mismuna útlendingum sem stunda nám hér á landi eftir því hvort þeir leggja stund á háskólanám eða iðnnðám. Ekki er hins vegar unnt að gera breytingarnar fyrr en þing kemur saman.

Choung Lei Bui stundar nám í matreiðslu við Menntaskólann í Kópavogi og er í starfsnámi á veitingastaðnum Nauthóli.  Hún hefur stundað námi í tvö ár og fékk tímabundið dvalarleyfi til þess. Breytingar sem gerðar voru á útlendingalögum á Alþingi á þarsíðasta þingi og tóku gildi í upphafi þessa árs  gera það að verkum að hún fær ekki dvalarleyfi framlengt þar sem við breytingarnar var ekki tekið fram í lögunum að iðnám veitti rétt til dvalarleyfis heldur bara nám á háskólastigi. Choung Lei Bui kærði ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja henni um dvalarleyfi til kærunefndar útlendingamála, sem nú hefur staðfest niðurstöðuna með vísan í lögin eins og þau eru.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í fréttum RÚV í síðasta mánuði að hún teldi að mistök hefðu verið gerð við lagasetninguna. Sigríður sagði í samtali við fréttastofuna í dag að verið væri að vinna að lagabreytingu í ráðuneytinu og sú vinna hafi farið í gang eftir að hún lét skoða fyrrgreindar breytingar sérstaklega. Ekki sé hins vegar unnt að breyta lögunum fyrr en Alþingi kemur saman á ný og það sé hennar vilji að þetta mál verði eitt það fyrsta sem til kasta nýs þings kemur.

Úrskurður kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp 14. nóvember og samkvæmt lögum verða útlendingar að hverfa af landi brott eigi siðar en fimmtán dögum eftir uppkvaðningu úrskurðarins.

 Þegar úrskurður á borð við þennan liggur fyrir tilkynnir stofnunin viðkomandi um lyktir mála og ef ástæða þykir til að fylgja viðkomandi úr landi er það Útlendingastofnun sem sendir málið til lögreglu.  Ekki fengust svör frá Útlendingastofnun um það hvort hart yrði gengið eftir því að Choung Lei Bui fari úr landi.

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV