Biður Hafnarfjörð um að bíða með að hætta

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Það er algjörlega ótímabært að ræða það hvort Hafnarfjarðarbær segi upp samningi um ferðaþjónustu fatlaðra. Þetta segir varaformaður Sjálfsbjargar.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar vill skoða kostnað við ferðaþjónustu fatlaðra og þar á meðal kanna hvort mögulegt sé að rifta samningi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um þjónustuna. Kostnaður er þrefalt meiri en ráð var fyrir gert.

Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, varar við því að Hafnarfjarðarbær fylgi þessum hugmyndum eftir. „Mér líst mjög illa á þær og tel þær algjörlega ótímabærar að svo komnu máli. Ferðaþjónustan er í ákveðnu ferli hjá framkvæmdaráðinu sem á ekki bara að passa upp á kostnaðinn heldur aðra þætti sem misfórust eins og allir þekkja. Þangað til þeir hlutir eru komnir á hreint bið ég menn náðarsamlegast að doka við þar til annað kemur í ljós,“ segir Bergur.

Hann segir að það kosti sitt að bæta þjónustuna og breyta þeim stöðlum sem hafi verið stuðst við í Hafnarfirði, ekki síst í öryggismálum. „Öryggismál voru til dæmis í ákveðnum ólestri og ég hef reynslu af því sjálfur. Þannig að það er ákveðinn dulinn kostnaður sem sprettur nú upp.“ En hefði sá kostnaður komið fram hvort sem samið var með þessum hætti eða ekki? „Bílarnir sem voru í boði í Hafnarfjarðarbæ voru einfaldlega ónýtir,“ segir Bergur. Öryggismál hafi ekki verið samkvæmt gildandi reglum og því hafi þurft að kaupa nýja bíla eða semja eins og gert hafi verið.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi