Biður fólk að hætta að dreifa nektarmyndum

Mynd:  / 

Biður fólk að hætta að dreifa nektarmyndum

27.09.2019 - 10:35

Höfundar

Bára Halldórsdóttir, aktívisti, listamaður og manneskja ársins 2018, að mati hlustenda Rásar 2, biður fólk að hætta að dreifa nektarmyndum sem sagðar eru að vera af henni sjálfri. Myndirnar bera yfirskriftina: „Hefnd fyrir Klausturmálið“ en þegar vel er að gáð er ljóst að myndirnar eru ekki af Báru heldur af látinni kunningjakonu hennar.

Báru Halldórsdóttur brá í brún þegar hún fékk fregnir af því að nektarmyndir af henni færu sem eldur í sinu um netheima undir yfirskriftinni Hefnd fyrir Klausturmálið. Þegar hún svo sá myndirnar komst hún að því að manneskjan á myndunum var alls ekki hún heldur kunningjakona hennar sem er látin. Bára skrifaði færslu á Facebook um málið og bað fólk vinsamlega að sýna þá lágmarksvirðingu að hætta að dreifa þessum myndum þó ekki væri nema bara fyrir aðstandendur konunnar sem þar sést, áður en myndirnar berast þeim og byrja að valda sorg og skaða.

Óhugnanleg tilhugsun að ættingjar hennar sæju

Bára sagði Hafdísi Helgu Helgadóttur og Andra Frey Viðarssyni frá þessu í Síðdegisútvarpinu. „Ég heyrði fyrst af þessu vikuna eftir Hinsegin daga þegar vinkona vinkonu minnar sendi henni þetta.“ Myndirnar sýna nakta konu sem svipar til Báru, með svipuð gleraugu og hárgreiðslu en þegar vel er að gáð má sjá að þetta er kona sem Bára þekkti. „Hún var kunningjakona mín og ein ástæða þess að ég vakti athygli á málinu er að ég var að frétta þetta aftur og aftur og fór að óttast að ættingjar hennar fengju þetta sent. Það væri óhugnanlegt,“ segir Bára ákveðin.

Býðst til að láta taka af sér nektarmyndir

Hún segir það ekki skipta mestu máli hver sé þarna að baki en hún segist boðin og búin til að færa hverjum sem er myndir af sér til að setja í dreifingu í staðinn fyrir þessar af kunningjakonunni. „Það er til nóg af asnalegum myndum af mér,“ segir hún og bætir því við að það sé þekkt fantabragð að reyna að gera fullorðnar konur skömmustulegar á þennan hátt. „Mér væri drullusama ef þetta væru myndir af mér. Ég vil bara koma því á framfæri að fólk á ekki að vera að senda myndir af látnu fólki á þessum grundvelli.“

Á Facebook býðst Bára til að láta taka smekklegar nektarmyndir af sér bráðvanti einhvern slíkar, og að láta þá ágóðann af þeim renna til Stígamóta. „Ég held nú að það vanti engan slíkar. En erum við ekki vaxin upp úr svona bulli?“

Haltur leiðir blindan á List án landamæra

Þegar Síðdegisútvarpið heilsaði síðast upp á Báru var hún í búri, en það var hluti af gjörning sem hún var með sem ætlað var að sýna almenningi óþekktar hliðar á lífi öryrkja. Á döfinni hjá henni er annar gjörningur en hún tekur þátt í dagskrá Listar án landamæra þar sem hún verður með innsetningu sem kallast Haltur leiðir blindan í Gerðubergi og varpar einnig ljósi á líf kvenna með fötlun.

Rætt var við Báru Halldórsdóttur í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á allt innslagið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Elska þegar áhorfendum líður illa“

Menningarefni

Einangraður öryrki í búri