Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biður fatlaða um biðlund í tvær vikur enn

20.01.2015 - 18:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúi meirihlutans í velferðarráði Reykjavíkurborgar bað viðskiptavini um að sýna ferðaþjónustu fatlaðra biðlund í hálfan mánuð í viðbót. Allir verktakar sem tóku þátt í og uppfylltu lágmarksskilyrði í útboði voru valdir til að aka fötluðu fólki í ferðaþjónustunni.

Málefni ferðaþjónustu fatlaðra voru fyrirferðarmikil á borgarstjórnarfundi í dag. Borgarstjóri sagði að talsmenn fatlaðra hefðu bent á fyrir nokkru að tímabært væri að nútímavæða ferðaþjónustu fatlaðra. Því hefðu menn ráðist í kerfisbreytingar á síðasta ári. Ákveðið hefði verið að bjóða aksturinn út en að pöntunarþjónustan yrði áfram í höndum Strætó. Í máli Dags kom fram að allir þeir sem boðið hefðu í aksturinn og uppfyllt tiltekin skilyrði hefðu fengið verkið, en á annan tug verktaka sjá nú um akstur Ferðaþjónustu fatlaðra.

Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu framkvæmd ferðaþjónustunnar og sögðu að alltof lítið samráð hefði verið haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Þá hefðu nauðsynleg námskeið fyrir bílstjóra ekki enn verið haldin. 

Þeir gagnrýndu sömuleiðis að öllum starfsmönnum gamla þjónustuversins hefði verið sagt upp störfum, þar á meðal þremur fötluðum starfsmönnum. Enginn þeirra hefði fengið endurráðningu, meðal annars vegna þess að krafist hefði verið 100 prósenta vinnu, en fatlaða fólkið var í hálfu starfi. Þarna hefði mikilli reynslu verið hent fyrir róða. Óskað var skýringa á þessari ákvörðun.

Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar og varaformaður velferðarráðs, sagði að aðalatriðið væri að læra af mistökunum og bað menn um að sýna biðlund í hálfan mánuð í viðbót. Hann sagði að allir væru sammála um að það hefði verið röng ákvörðun að setja 1.100 króna gjald á hverja ferð umfram 60 ferðir á mánuði og að það yrði endurskoðað á næsta fundi velferðarráðs.