Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biðla til Bandaríkjahers að beita sér

epa07537758 (FILE) - Venezuelan National Assembly President Juan Guaido chairs an open town council, in Caracas, Venezuela, 19 April 2019 (reissued 30 April 2019). According to reports, Venezuelan opposition leader Leopoldo Lopez was freed from his house arrest, appearing with Guaido in a video telling supporters to take to the streets in order to end the regime of President Nicolas Maduro.  EPA-EFE/Rayner Pena
Juan Guaido. Mynd: EPA-EFE - EFE
Forsvarsmenn Juan Guaido leiðtoga stjórnarandstöðu Venesúela sendu bréf til Bandaríkjahers þar sem þeir óskuðu eftir fundi um stöðu mála í landinu, eftir misheppnaða valdaránstilraun í apríl.

Sendifulltrúi Guaido í Washington, Carlos Vecchio, sendi bréfið og fór þess á leit við hershöfðingjann Craig Faller að viðræður yrðu hafnar milli stjórnarandstöðunnar og hersins um leiðir til að lina þjáningu íbúa Venesúela og koma aftur á fót lýðræði í landinu. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Bandaríkin eru helstu stuðningsmenn Guaido og stjórnarandstöðunnar og hafa ekki útilokað hernaðaríhlutun í landinu.

Stjórnvöld í Caracas eru afar ósátt við þetta nýjasta uppátæki Guaido og liðsmanna hans. Varaforseti Venesúela, Delcy Rodriguez, sagði með þessu væri verið að hefja undirbúning innrásar Bandaríkjahers og tók varnarmálaráðherrann Vladimir Padrino í sama streng.

Í síðustu viku lýsti Faller því yfir að her Venesúela yrði að taka ákvörðun, að styðja stjórn „harðstjórans“ Nicolas Maduro eða landsmenn. Þrátt fyrir viðskiptaþvinganir og erfitt efnahagsástand hefur Guaido, sem lýsti sig réttmætan forseta landsins í janúar, ekki tekist að grafa undan stjórn Maduro að ráði.

Varnarmálaráðherrann og yfirmenn hersins hafa lýst því ítrekað yfir opinberlega að þeir styðji stjórn Maduro og fáir hásettir yfirstjórnar hersins og stjórnmálamenn hafa gengið í raðir stjórnarandstöðunnar.

Þátttaka í mótmælum Guaido gegn stjórn Venesúela hefur dregist saman að undanförnu, aðeins um 1500 til 2000 manns komu út á götur Caracas á laugardag og mótmæltu stjórn Maduro.

Í Venesúela má finna gríðarlegt magn olíu og að sögn forseta landsins er það ástæða þess að Bandaríkin vilji steypa stjórn hans af stóli. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum búa um 30 milljónir íbúa við matvælaskort og um 2.7 milljónir hafa flúið vegna ástandsins þar.