Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biðin hefur veruleg áhrif á lífsgæði fólks

13.11.2018 - 20:03
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Fjölgað hefur um 20 prósent á biðlistum eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða og biðtími hefur lengst. Embætti landlæknis lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Meðalbiðtími þeirra sem fengu hjúkrunarrými á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs var hundrað tuttugu og einn dagur. Biðtími þeirra sem fengu rými í einbýli á höfuðborgarsvæðinu var að meðaltali um 50 dögum lengri en þeirra sem fengu tvíbýli.

Í september biðu að meðaltali 411 manns eftir hjúkrunarrými. Á sama tíma í fyrra biðu færri, eða 342. Fjölgun á biðlistum á landsvísu nemur 20 prósentum.

Fólkinu sem bíður má skipta í tvo hópa, þá sem bíða heima og þá sem bíða annars staðar, til dæmis á sjúkrahúsi, að sögn Lauru Sch. Thorsteinsson, teymisstjóra úttekta hjá Embætti landlæknis. „Þeir sem bíða heima finna oft fyrir miklu óöryggi og vanlíðan að vera einir heima og geta kannski ekki neina björg sér veitt ef þeir detta eða eitthvað slíkt. Ættingjar lýsa því líka að þeir finni fyrir miklu óöryggi á meðan þeir bíða.“ Hins vegar sé fólk sem búi á sjúkrahúsi og finnst það kannski vera að teppa rúm frá öðrum sem þurfa á sjúkrahúsvist að halda. „Þeim finnst þeir jafnvel vera fyrir og vera hornreka þannig að það er mjög vond tilfinning. Þannig að þetta hefur veruleg áhrif á lífsgæði fólks að bíða svona.“

Í lok síðasta árs beið 81 einstaklingur á Landspítala eftir búsetu annars staðar. Helmingur þeirra hafði beðið lengur en í þrjá mánuði. Í byrjun október voru 16 prósent af rúmum á spítalanum notuð af öldruðu fólki sem beið eftir að komast á hjúkrunarheimili. „Það hefur þau áhrif á kerfið að flæði sjúklinga tefst og þeir sem raunverulega þyrftu á meðferð á sjúkrahúsi að halda, þeir komast ekki í hana og það getur aukið biðtíma eftir annarri heilbrigðisþjónustu, sem er mjög bagalegt.“

Hér má lesa úttekt Embættis landlæknis um bið eftir hjúkrunarrými.