Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Betur sjá augu en auga

Mynd með færslu
 Mynd:

Betur sjá augu en auga

20.02.2014 - 10:55
Guðni Tómasson myndlistarrýnir fjallar um sýninguna Betur sjá augu: Ljósmyndun íslenskra kvenna 1872-2013 sem nú stendur yfir í Þjóðminjasafni Íslands.

Það verður ekki annað sagt en að á undanförnum árum og kannski allra síðustu áratugum hafi orðið vitundarvakning um íslenska ljósmyndun og sögu hennar. Að hluta til má rekja þetta til bættrar sýningaraðstöðu þar sem íslensk ljósmyndun hefur fengið að njóta sín, t.d. ljósmyndasalarins á jarðhæð Þjóðminjasafns Íslands eftir enduropnun þess og sýningarsalar Ljósmyndasafns Reykjavíkur á efstu hæð í Grófarhúsi, en einnig til stór aukinnar útgáfu á ljósmyndaarfinum í bókarformi. Ekki skal vanmeta þátt þessara safna og þá einkum Ljósmyndasafns Íslands, sem er innan Þjóðminjasafnsins, í þessari þróun en þar á bæ hefur Inga Lára Balvinsdóttir farið fyrir endurmati og miðlun á þessum arfi.

Og nú er enn einn kafli ritaður í þessa sögu með nýrri sýningu í sýningarsalnum áðurnefnda á jarðhæð Þjóðminjasafnsins. Þar hefur Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari og sýningarhöfundur sett saman, ásamt starfsfólki Ljósmyndasafnsins, sýninguna Betur sjá augu. Ljósmyndun íslenskra kvenna 1872 – 2013. Já, þið heyrðuð rétt – tímabilið er rúm 140 ár takk fyrir og þarna kennir því ýmisra grasa. Þarna er að finna verk eftir 34 konur sem hafa valið sér sneiðar veruleikans til að festa á filmu eða í aðra miðla ljósmyndalistarinnar.  Katrín hefur á undanförnum misserum rannsakað efnið gaumgæfilega og niðurstaðan er sýningin sem nú hefur verið opnuð.

Á upphafsárum ljósmyndunar á Íslandi var greinin, ólíkt flestum öðrum iðngreinum, ekki kynbundin og því nær þessi sýning allt frá frumkvöðlastarfi kvenna á borð við Nicoline Weywadt og Sigríði Zoega, mannamyndum þeirra og landslagsmyndum, og til síðasta árs í myndum Hallgerðar Hallgrímsdóttur sem tekur myndir af unga fólkinu á götum Reykjavíkur.  

Sýningunni er skipt í tvo megin flokka sem aftur eru tvískiptir: Portrett og mannlíf og fjölskylda og heimilislíf. Fjölbreytnin í efnistökum svo ólíkra ljósmyndara er mikil en samt er áberandi hve virðing fyrir myndefninu er mikil og innileg í flestum tilvikum, það er ákveðin hlýja í nálgun ljósmyndaranna og það er ekki bara svo að maður vilji lesa þá næmni inn í sýninguna, hún virðist svo sannarlega vera til staðar. Mismunandi er hvernig þessar konur, sem vitanlega lifa í gjörólíku samfélagi eftir því hvenær þær störfuðu, nálgast ljósmyndunina. Sumar lögðu stund á hana í atvinnuskyni sem iðngrein, aðrar nýta sér ljósmyndina sem miðil í listrænum tilgangi og þá jafnvel sem aðeins eitt tól í sínu listræna verkfærasetti; enn aðrar virðast hafa verið knúnar áfram af forvitni eða vilja til að skrásetja hliðar á heiminum sem voru mögulega að hverfa.

Stundum er tilraunamennskan í fyrirrúmi, eins og t.d. í myndum Nönnu Bisp Büchert frá 1988 þar sem fjölskyldumyndum og kyrralífi er steypt saman, en algengara er þó að ákveðið raunsæi sé að finna í efnistökunum. Þarna má t.d. víða finna óvenjuleg sjónarhorn á heimilislíf kvenna í gegnum tíðina eða einkar sanna og næma sýn á ellina þegar realísk og óuppstillt vinnubrögð eru komin til sögunnar í þróun ljósmyndalistarinnar hér á landi.

Vinna kvenna á heimilum er fyrirferðarmikil í myndunum og vitnar oft um breytingar á lifnaðarháttum og í þjóðlífi almennt. Þannig er merkilegt bera saman þrjár seríur sem teknar eru með nokkura áratuga millibili eftir þær Sophiu Claessen, Lilý Guðrúnu Tryggvadóttur og Þórdísi Elvu Ágústsdóttur sem allar fjalla um eldhúsið og stofuna, samveru fjölskyldunnar og tengslin milli fjölskyldumeðlima með ólíkum hætti. Með því að setja þessar seríur hlið við hlið er hægt að lesa mikla sögu um kynvitund og kynjahlutverk og það er sýningarhöfundi til tekna að ekki er verið að eltast við að búa til of línulega frásögn í efnistökum, ólíkir tímar ná þannig að kveðast á.

Þessi sýning snýst ekki um stórsöguna eins og hún er skrifuð í sögubókunum og vill stundum frekar verða einföldun og tilbúningur en hitt. Þetta er sýning um daglega lífið, í ætt við einsögurannsóknir undanfarinnar ára. Þannig hefur linsunni yfirleitt verið beitt, það smá hefur átt að segja söguna, sögu sem jafnvel hefur getað borið í sér aðrar og lagskiptari sögur. Það er ekki oft sem glittir í stórsöguna og jafnvel þá, eins og t.d. í myndaseríu Jóhönnu Ólafsdóttur frá ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar á Þingvöllum árið 1974, þá er myndavélinni beint upp í brekku til að nema þar það venjulega og almenna frekar en það upphafna og sértæka. Um leið er þetta sýning sem gefur manni ágæta tilfinningu fyrir tísku og tíðaranda og sýn íslenskra kvenljósmyndara á eigin veruleika í gegnum tíðina.

Titill sýningarinnar er forvitnilegur, Betur sjá augu. Þannig má freistast til að lesa hann sem frásögn af því hve ljósmyndalistin hefur verið karllæg grein, alla vega ef litið er til þeirra sem mestri fótfestu hafa náð í greininni hérlendis. Það segir ákveðna sögu að konurnar nú komi í hóp á eftir sýningu á verkum Sigfúsar Eymundssonar sem síðast var í þessum ágæta sýningarsal. Samt er þetta ekki svo einfalt. Af dæmum í glerkössum í salnum má sjá að ljósmyndun sumra þessara kvenna hefur verið gerð ágæt skil í gegnum tíðina. Augljósust er umfjöllum um þær sem fyrstar komu fram og eru nú sýndar í sérstöku sýningarherbergi í salnum miðjum þar sem hægt er að stilla af ljós fyrir þessa viðkvæmu gripi.

Og tilgangurinn með sýningunni gengur upp. Þetta er fjölbreytt, forvitnileg og vönduð sýn á nokkuð af því sem íslenskar konur hafa verið að fanga með ljósmyndina að vopni í gegnum tíðina. Betur sjá nefnilega augu en auga.   

Guðni Tómasson