Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Betur hugað að tekjuöflun í fyrra frumvarpinu

02.01.2018 - 08:53
Mynd: RÚV / RÚV
Minna er hugað að tekjuöflun í fjárlögum þessa árs en gert var í frumvarpinu sem Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, lagði fram síðastliðið haust. Þetta segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði. Hann segir að afstaða ferðaþjónustunnar til greiðslna í opinbera sjóði minni á rányrkju í sjávarútvegi á árum áður. Þá hafi verið sótt grimmt á miðin en nú megi líkja því við rányrkju hvernig ferðaþjónustan vilji njóta innviða samfélagsins án þess að greiða fyrir þá.

„Það er minni kerfisbundin hugsun í tekjuöfluninni núna heldur en var í frumvarpi Benedikts Jóhannessonar. Sem er afturför, mikil afturför,“ sagði Þórólfur í þættinum Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Þar sá maður heildarhugsun þar sem menn voru að leggja út frá því að það átti að draga úr kolefnislosun og haga skattlagningunni í samræmi við það. Það var byrjað að taka inn auknar tekjur af ferðamennskunni, það var horfið af þeirri braut. Fyrstu fréttir frá nýjum formanni atvinnuveganefndar er að það skuli lækka skatta á litlar og meðalstórar útgerðir. Fylgja þá ekki stóru útgerðirnar eftir ef jafnræðis á að vera gætt? Einhvern veginn endar þetta með því að það verður virðisauki á því sem við íslensku þrælarnir kaupum, meðan allt annað er skattfrjálst.“

Rányrkja innviðanna

Þórólfur sagði að skammtímahorfur væru góðar en langtímahorfur óvissari. Nú væru þjóðartekjur á mann umfram það sem áður hefur verið en að á sama tíma horfi til verkfallshrina á næstu mánuðum. Hann sagði þverstæðukennt ef fólk sæi ekki aðra leið til að leysa úr deilum um tekjuskiptingu en að grípa til verkfalla. „Okkur ber ekki gæfa til að hugsa málin út frá prinsippum.“

Þórólfur vísaði til orða forseta í áramótaávarpi sínu sem talaði um þjóðarsjóð Norðmanna. Hann benti á að Norðmenn hefðu byggt upp mikinn sjóð sem tryggði þeim tekjur til framtíðar. Hér hefðu Íslendingar snemma stundað rányrkju á miðum og að nú gerðist það sama í ferðaþjónustunni, þar sem ferðaþjónustan stundaði rányrkju á innviðum samfélagsins. „Það má ekki nefna það að taka greiðslur af ferðamönnum. Það má ekki hækka virðisauka á þjónustu sem ferðamönnum er veitt, nema þá í afar hægum skrefum, á sama tíma og við sjáum það að ferðaþjónustan treystir á að nota innviði íslensks samfélags.“ Það hefði síðast sést í bílslysi fyrir jólin, sagði Þórólfur og vísaði til rútuslyssins í Eldhrauni.