Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bestu íslensku skáldverk ársins

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels

Bestu íslensku skáldverk ársins

16.12.2017 - 09:36

Höfundar

Íslensk skáldverk sem stóðu upp úr á þessu ári hjá gagnrýnendum Kiljunnar og Víðsjár.

Saga Ástu

eftir Jón Kalman Stefánsson

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Gauti Kristmannsson, gagnrýnandi Víðsjár:
Jón Kalman sýnir og sannar með þessari nýjustu bók sinni að hann er einn af okkar „stóru“ höfundum sem tekur sér það frásagnarrými sem hann þarf og skilar því í einni og þrauthugsaðri heild. Hann fer með lesendur fram og til baka í tíma og á tilfinningaskala með hætti sem heldur við efnið. Jón Kalman hefur náð því að skrifa sögur þar sem engu er fórnað. Fegurð, list og frásagnartækni sameinast í einu verki í Sögu Ástu. 

Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrýnandi Kiljunnar:
Hugleiðingar Jóns Kalmans um lífið, dauðann, ástina og tímann rata yfirleitt alltaf beint til hjartans. Það gerist einnig í Sögu Ástu. Bókin er ekki ein af hans allra bestu og lesandinn hefði gjarnan viljað vita meira um aðalpersónuna. Það er hins vegar ekki annað hægt en að hrífast af glæsilegustu köflum bókarinnar og um leið dást að hæfileikum höfundarins.

Andri M. Kristjánsson, gagnrýnandi Víðsjár:
Það tekur svona 50 blaðsíður að komast inn í bókina en eftir það líður frásögnin áfram á heillandi hátt. Persónurnar eru raunverulegar og búa yfir sálfræðilegri dýpt. Sagan sjálf er átakanleg og upplífgandi á sama tíma.

Lesið dóma okkar um bókina í Víðsjá og í Kiljunni.


Elín, ýmislegt

eftir Kristínu Eiríksdóttur

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Guðrún Baldvinsdóttir, gagnrýnandi Víðsjár:
Skáldsagan Elín, ýmislegt fjallar á viðkvæman og fallegan hátt um fólk sem hefur sín sérstöku persónueinkenni og býr yfir dimmari sögum en virðist í fyrstu. Kristín Eiríksdóttir hefur sérstakt lag á að miðla skynjun í texta, allt frá því minnsta og brothætta yfir í hið stóra og gróteska. 

Haukur Ingvarsson, gagnrýnandi Kiljunnar:
Höfundarverk Kristínar Eiríksdóttur samanstendur af ljóðum, skáldsögum, leikritum, myndverkum og gjörningum svo eitthvað sé nefnt. Þessi fjölhæfni gerir henni kleift að nálgast viðfangsefni sín úr allt öðrum áttum en höfundar gera alla jafna og þannig er sýn hennar á form, viðfangsefni og stíl einstök í íslenskum bókmenntum. Skáldverk Kristínar vaxa ávallt við frekari lestur og í þeim opnast gjarna nýir heimar þegar þau eru skoðuð í samhengi við önnur verk hennar því þar koma fyrir stef í breyttum endurtekningum sem gefa ákveðnum þemum eins og ofbeldi, umhverfismálum og kynjapólitík enn frekari þunga.

Sunna Dís Másdóttir, gagnrýnandi Kiljunnar:
Þessi stutta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur um einstæðingana Elínu og Ellen er miklu stærri og meiri en blaðsíðufjöldinn segir til um. Þræðirnir sem Kristín vefur halda mér enn, löngu eftir að lestri lýkur. Myndrík og safarík. 

Lestu dóm okkar um Elín, ýmislegt í Kiljunni.


Kóngulær í sýningargluggum

eftir Kristínu Ómarsdóttur

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Gauti Kristmannsson, gagnrýnandi Víðsjár:
Kristín Ómarsdóttir er án vafa eitt okkar fremsta ljóðskáld nú á tímum. Hafi einhver verið í vafa um það ætti þeim hinum sama að nægja að lesa Kóngulær í sýningargluggum þar sem Kristín tekur lesandann enn víðar um völl tilfinninga með því að bjóða ævinlega upp á ný og óvenjuleg sjónarhorn, sjónarhorn sem manni datt ekki í hug að væru til, en eru auðvitað sjálfsögð eftir lestur ljóða hennar. Hún er eitt þessara skálda sem alltaf eru að skapa heiminn upp á nýtt fyrir okkur lesendur.

Steinunn Inga Óttarsdóttir, gagnrýnandi Víðsjár:
Ljóð Kristínar fjalla um samtíma, samhengi og samfélag; eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Lesið dóma okkar um bókina í Víðsjá og í Kiljunni.


Flórída

eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Sunna Dís Másdóttir, gagnrýnandi Kiljunnar:
Flórída kom mér algjörlega á óvart. Prósaljóðin leika í höndunum á Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Verkið er grípandi, yfirþyrmandi og átakanlegt og persónurnar heillandi, láta mann ekki í friði. Mögnuð bók.


Formaður húsfélagsins

eftir Friðgeir Einarsson

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrýnandi Kiljunnar:
Þessi vel skrifaða skáldsaga er nokkur uppgötvun í jólabókaflóðinu. Hér er hversdagsleikinn settur í forgrunn. Frásögnin er allt til enda afar lágstemmd en um leið sérkennilega heillandi og afar fyndin. Án efa skemmtilestur ársins.

Lestu dóma okkar um bókina í Víðsjá og í Kiljunni.


Óratorrek

eftir Eirík Örn Norðdahl

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Steinunn Inga Óttarsdóttir, gagnrýnandi Víðsjár:
Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag í rugli.


Stór olíuskip

eftir Jónas Reyni Gunnarsson

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Þorgeir Tryggvason, gagnrýnandi Kiljunnar:
Jónas Reynir Gunnarsson stimplar sig inn með stæl í þessu flóði. Í ljóðabókinni Stór olíuskip kynnumst við rödd og persónulegri nálgun á ljóðformið sem fangar athygli manns. Snjöll og heildstæð bók sem framkallar bros í heilaberki og ónáðar tilfinningastöðvarnar


Sakramentið

eftir Ólaf Jóhann Ólafsson

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Þorgeir Tryggvason, gagnrýnandi Kiljunnar:
Sakramentið er með því besta sem ég hef lesið frá Ólafi Jóhanni Ólafssyni. Flott uppbygging, sannfærandi andrúmsloft og persónur sem manni er alls ekki sama um. Rígheldur eins og góður krimmi. 

Lesið dóma okkar um bókina í Víðsjá og í Kiljunni.


Blóðug jörð

eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Andri M. Kristjánsson, gagnrýnandi Víðsjár:
Fortíðin og samtíminn mætast á frábæran hátt í bókinni. Þar blandast saman heillandi sögusvið landnámsaldarinnar og samtíma lýsingar á innra lífi persóna. Ég hef lengi haft áhuga á því að lesa Íslendingasögu sem er full af tilfinningum og hér er hún komin.

Lesið dóm okkar um bókina í Víðsjá.