Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bestu íslensku dægurlagatextarnir

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd

Bestu íslensku dægurlagatextarnir

17.10.2017 - 16:22

Höfundar

Álitsgjafar Rásar 2 fengu á dögunum það verkefni að velja besta íslenska dægurlagatextann. Allt var undir, popp, rokk, rapp og hvaðeina í íslenskri dægurtónlist – eina skilyrðið var að textinn væri á íslensku.

Alls fengu tæplega 70 textar atkvæði enda um auðugan garð að gresja í íslenskri tónlistarsögu. Þrír textahöfundar komust oftast á blað, þeir Bubbi Morthens, Bjartmar Guðlaugsson og Magnús Eiríksson með fjóra texta hver. Bragi Valdimar Skúlason átti þrjá og þeir Þorsteinn Eggertsson og Megas tvo hvor. 

Álitsgjafarnir nefndu þætti eins og stemmingu, hughrif, húmor og notkun tungumálsins aðspurðir um hvað einkennir góðan texta. Hér má sjá hvaða textar skipuðu tíu efstu sætin í valinu:

10. Stingum af eftir Örn Elías Guðmundsson (Mugison) 

Einstök stemming í þessum texta. Gæðastundir í náttúrunni með sínum nánustu."

9. Ó Reykjavík eftir Sigurlaugu „Diddu" Jónsdóttur. 

„Frumleg og fersk lýsing á Reykjavík pönktímabilsins."

8. Þrek og tár eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld. 

„Ljúfsár texti um liðna tíma sem snertir streng í hjartanu."

7. Aldrei fór ég suður eftir Bubba Morthens. 

Mjög myndrænn texti sem lýsir vel ástandi, stemmingu og aðstæðum. Maður sér þetta allt ljóslifandi fyrir sér." 

6. Ómissandi fólk eftir Magnús Eiríksson.

„Einn allra fallegasti texti sem saminn hefur verið á Íslandi. Kemur við kjarnann í fólki og varðar okkur öll."

5. Týnda kynslóðin eftir Bjartmar Guðlaugsson. 

„Hnyttin texti sem teiknar mynd af aðstæðum sem margir þekkja. Ber vitni um ákveðna stemmingu og tíma í skemmtanalífi landans."

4. Líttu sérhvert sólarlag eftir Braga Valdimar Skúlason.

Einn af þessum fallegu textum sem minnir okkur á hverfulleika lífsins og hversu mikilvægt það er að nýta þann tíma sem okkur gefst. Mjög vel skrifaður."

3. Rómeó og Júlía eftir Bubba Morthens.

 

„Það er ekki á hverjum degi sem forsetinn vitnar í dægurlagatexta! Bubbi setur fram sterka sögu og færir hlustandann inn í erfiðar og tregafullar aðstæður sem kalla fram samkennd frekar en dómhörku."

2. Þá kemur þú eftir Björn Jörund Friðbjörnsson.

Áhrifamikill texti þar sem geðlægðir og veðurlægðir kallast á. Þungur texti að mörgu leyti en lýsir líka von og gleði sem felst í því að eiga einhvern góðan að."

1. Tvær stjörnur eftir Megas.

„Texti um söknuð og eftirsjá sem margir samsama sig við. Einlægur og tilfinningaþrunginn texti sem málar skýra mynd."

Tvær stjörnur
Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.
Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
Því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðin.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.
Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,
auglínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttinni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festinguni sem færast nær og nær.
Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.
En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.

Tvær stjörnur hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sætið og hlaut m.a. rúmlega tvisvar sinnum fleiri atkvæði en næsta lag fyrir neðan. 

Hópur álitsgjafa Rásar 2 er skipaður fólki á aldrinum 15-70 ára, af báðum kynjum, dagskrárgerðarfólki í útvarpi og sjónvarpi, blaðamönnum, tónlistarfólki og áhugafólki um tónlist úr ýmsum áttum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Tíu flottustu íslensku plötuumslögin

Popptónlist

Tíu bestu fyrstu plötur íslenskra poppara