Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Besti staðurinn á landinu fyrir eldgos

31.08.2014 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðiprófessor segir gosið í Holuhrauni verulegt, en þó ekkert stórgos. Nýjar tölur bendi til þess að úr gossprungunni streymi um 250 rúmmetrar af kviku á sekúndu, sem er svipað og streymið í Jökulsá á fjöllum. Gosið líkist um margt gosunum sem urðu í Kröflueldum.

Magnús Tumi leggur áherslu á að gosið sé gerólíkt Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Gosið í Holuhrauni sé hraungos og upp úr sprungunni komi hvorki gjóska né mökkur. Í Eyjafjallajökulsgosinu hafi orðið sprengigos undir jökli og því fíngerð gjóska þeyst upp í himininn. Erfitt sé að bera gosin tvö saman, þótt magn gosefna sem upp koma sé svipað.

Aðspurður um hvort gosið í Holuhrauni minnki eða auki lýkur á gosi í Öskju eða Bárðarbungu, segir Magnús Tumi gosið heldur minnka líkurnar á gosi annars staðar. Gos í Öskju hafi þó aldrei verið mjög líklegt. Þó þurfi að hafa í huga að gossprungan lengist enn. Í dag hafi hún lengst í norður, en þó kunni að vera að hún lengist einnig í suður - hugsanlega alla leið undir jökulinn.

Magnús Tumi bendir á að meðan gosið helst norðan jökulsins sé þetta besti staður landsins fyrir eldgos með tilliti til náttúruvár.