Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Besti flokkurinn aftur stærstur

21.09.2013 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Besti flokkurinn og Vinstri grænir bæta við sig fylgi í borginni frá því í vor en aðrir flokkar tapa, samkvæmt nýrri Gallup-könnun. Stjórnmálafræðingur segir Besta flokkinn ekki vera brandarann sem margir héldu að þetta væri.

Besti flokkurinn mælist stærstur flokka í borginni með 35 prósenta fylgi. Hann var með þrjátíu og tvö prósent í apríl og þrjátíu og fimm prósent í kosningum. Hann er því kominn aftur með kjörfylgi sitt. Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við HÍ, segir Besta flokkinn hafa mjög góða stöðu samkvæmt þessari könnun. „Þetta er ekki framboð sem gufar upp á kjörtímabilinu og þetta er ekki brandarinn sem sumir héldu að þetta væri.“

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 31 prósents fylgi, litlu minna en í apríl. Í kosningunum var flokkurinn með 34 prósent.  Miðað við könnun Gallup fyrir ári hefur flokkurinn tapað ríflega tíu prósenta fylgi yfir til Besta flokksins.

Stefánía segir þetta umhugsunarefni fyrir þá sem leiða Sjálfstæðisflokkinn. Hún skýrir þetta að hluta með brotthvarfi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur úr oddvitasætinu. „Bara sú áherslubreyting að færa sig yfir í landsmálin tók Hönnu Birnu svolítið af vettvangi borgarmálanna og Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá ekki verið með mann eða konu í brúnni sem er áberandi talsmaður fyrir flokkinn.“

Samfylkingin tapar áfram fylgi samkvæmt könnun Gallup, mælist nú með fimmtán prósent, tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun, og fjórum prósentustigum minna en í kosningum.

Vinstri græn mælast hins vegar með ellefu prósent, bæta við sig þremur prósentustigum frá því í síðustu könnun og fjórum prósentustigum frá kosningum. Framsóknarflokkurinn mælist svo með fjögur prósent, en var með níu í síðustu könnun.Fjögur prósent myndu kjósa aðra flokka.

Besti flokkurinn fengi sex borgarfulltrúa ef þetta verður niðurstaða kosninganna, Sjálfstæðisflokkurinn fimm og Samfylking og Vinstri græn tvo. Eina breytingin frá kosningum yrði því að Samfylkingin tapaði manni yfir til Vinstri grænna.

Könnun Gallup var gerð dagana 15.ágúst til 14.september. Heildarúrtakið var 2.682 Reykvíkingar, 18 ára og eldir. Svarhlutfall var 60,1 prósent. Rúmlega 13 prósent tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp. Ríflega sex prósent sögðust ætla að skila auðu eða ekki kjósa.