Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Besta berjasprettan á Austurlandi

01.08.2018 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Berjaspretta nú í sumar er afar misjöfn eftir landshlutum. Langmest er af berjum á Austurlandi þar sem sólin hefur skinið mest og útlitið er einnig gott fyrir norðan. Mun verr lítur út með berjasprettu á Suður- og Vesturlandi.

Nú er kominn sá tími ársins þegar fólk fer að langa í berjamó til að tína bláber og krækiber. Það hefur sjáfsagt ekki farið fram hjá neinum að tíðarfarið hefur verið afar misjafnt á landinu og það hefur áhrif á berjasprettuna.

Austfirðir hafi vinninginn í ár

Sigurbjörg Snorradóttir er mikill áhugamaður um berjatínslu og hún segir útlitið best á Austurlandi. Þar hefur verið sólríkt í sumar og það segir hún skipta miklu máli svo berin þroskist vel. „Ég held að Austfirðirnir eigi nú heiðurinn núna í ár, ég hef trú á því. Þeir eru allavega fyrstir núna með góð ber. En ég held að það verði víða góð ber. Það verður fallegt fyrir norðan líka.“

Vanti enn nokkra daga á Norðurlandi

En á Norðurlandi vanti um tíu daga svo berin þar verði vel þroskuð. „Það er ekkert mál að tína í skyr og þannig. En ekki til þess að fara í einhverja stórútgerð.“

Útlitið ekki gott á vestanverðu landinu

Á Vestfjörðum er berjasprettan skammt á veg komin og Sigríður Hafliðadóttir í Hvítanesi við Ísafjarðardjúp segir útlitið þar ekki gott. Krækiberin séu lítil og mjög lítið af aðalbláberjum. Það er meira af berjum á Vesturlandi en þar vantar meiri sól.

Léleg berjaspretta á Suðurlandi

En Sigurbjörg segir útlitið á Suðurlandi slæmt. „Það er bara óskaplega lélegt víða, það eru nánast bara koppar sumstaðar. Krækiberin þau eru svosem þokkaleg, en ekki bláber eða aðalbláber. Ég held að það þurft töluvert marga hlýja og góða daga. Það er náttúrulega búið að vera ótrúlega kalt hérna á Suðurlandinu og miklar rigningar.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV