Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Best ef lögreglustjórar hafa sama háttinn á“

19.07.2016 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkislögreglustjóri telur að lögregla eigi að upplýsa almenning um brot, en lögreglan í Vestmannaeyjum ætlar ekki að tilkynna um fjölda hugsanlegra kynferðisbrota á þjóðhátíð.

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum ætlar ekki að upplýsa fjölmiðla um hugsanleg kynferðisbrot í Eyjum um verslunarmannahelgina. Ríkislögreglustjóri segir eðlilegt að vinnubrögð lögreglu séu eins alls staðar á landinu. 

„Lög standa ekki gegn því að hún fjalli svona um málin“
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hafi haft samband við neyðarmóttöku Landspítalans og óskað eftir því að fjölmiðlum verði ekki gefnar upp upplýsingar um fjölda hugsanlegra kynferðisbrota á Þjóðhátíð. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir lögreglustjórann hafa fulla heimild til að marka sína stefnu og vill ekki gagnrýna hana en segir stefnuna stílbrot. „Þetta er sú leið sem hún hefur valið í þessum efnum. Lög standa ekki gegn því að hún fjalli svona um málin eins og hún gerir. En eins og ég segi þá er þetta nokkuð stílbrot á það hvernig málin eru meðhöndluð annars staðar á landinu,“ segir Haraldur. 

Er eðlilegt að hver og einn lögreglustjóri marki sína stefnu í málum sem þessum?
„Mér finnst náttúrulega eðlilegt að það sé sama stefna í þessum efnum og lögreglumálum alls staðar á landinu og að hún sé ekki mismunandi eftir því hvar þú ert staddur á landinu, það á bara við um vinnubrögð lögreglunnar og málsmeðferð lögreglunnar almennt séð og í einstaka málum. Það á að vera sama málsmeðferð,“ segir Haraldur.

Ætti hún hugsanlega að endurskoða þetta? 
„Það er að sjálfsögðu hennar mat og hennar ákvöðrun. Eins og ég segi, ég vil ekki vera að gagnrýna hana fyrir hennar ákvörðun, en hún er ekki eins alls staðar á landinu og það er það sem ég er að segja að það sé best ef lögreglustjórar hafa sama háttinn á í þessum efnum sem öðrum alls staðar á landinu,“ segir Haraldur

Ósamála um upplýsingagjöf
Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að verkefnisstjóra neyðarmóttöku Landspítalans og lögreglustjórann í Vestmannaeyjum greini á um hvort veita eigi fjölmiðlum upplýsingar um hugsanleg kynferðisbrot á þjóðhátíð. Haraldur segir neyðarmóttökuna hafa fullan rétt á að veita upplýsingar: „Lögreglan, hún stjórnar að sjálfsögðu ekki Landspítala Háskólasjúkrahúsi þannig að ég hef alls engar athugasemdir við það hvernig þeir ætla að tilkynna um þá atburði sem koma upp um verslunarmannahelgi frekar en aðra daga ársins.“