Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Berskjaldað þjóðlagapopp

Mynd: Ingunn Huld / Ingunn Huld

Berskjaldað þjóðlagapopp

23.03.2016 - 14:34

Höfundar

Fjúk er fyrsta plata Ingunnar Huldar Sævarsdóttur. Innihaldið er ómþýtt þjóðlagapopp og er valinn maður í hverju rúmi hvað undirleik og upptökur varðar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í þessa plötu Ingunnar, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Ingunn Huld Sævarsdóttir eða Ingunn Huld er tiltölulega óþekkt nafn í íslenskum tónlistarheimi en sprettur þó hér nánast fram fullsköpuð úr höfði Seifs. Hún leggur fyrir sig  melódískt þjóðlagapopp og leysir það mestmegnis með miklum bravúr. Það er mikið „músíkalítet“ á plötunni eða tónnæmi og ástæða fyrir því, Ingunn er menntuð í tónlist, er m.a. þverflautukennari og með próf í djasssöng frá FíH og sú reynsla gagnast vel. Þá styður hópurinn sem hún vinnur með heldur betur við útkomuna; djassjöfrarnir Ásgeir Ásgeirsson, Birgir Bragason og Erik Qvick sjá m.a. um undirleik, þau Ólafur Schram, Unnur Birna Björnsdóttir og Hallgrímur Jónas Jensson koma og að þeim efnum og Birkir Rafn Gíslason og Stefán Örn Gunnlaugsson sjá um að koma herlegheitunum inn á band. Sjálfur Bjarni Bragi Kjartansson sér svo um að hljómjafna þannig að, eins og sjá má, rennur platan hljóm- og spilunarlega í gegn eins og ljúfasta fjallahunang.  Þetta er berskjaldað, á stundum sakleysislegt, þjóðlagapopp sem svífur þægilega áfram.

Úthugsað

Platan hefst á „Upp“, björtu og drífandi lagi eins og titillinn gefur til kynna og sú smíð kemst næst því að vera einslags útvarpsslagari. Poppað og grípandi. „Umvafin“, næsta lag á eftir, er þó meira lýsandi fyrir plötuna í heild sinni. Ballöðukennt og brothætt. „Hugfesting“ rær um svipuð mið, melankólískt og sellóleikur gefur því einkennandi yfirbragð. Útsetningar laga og samvinna hinna ýmsu hljóðfæra er til mikillar fyrirmyndar, allt er þetta úthugsað og gefur hverju og einu lagi þétt og traust yfirbragð. Plötunni vindur áfram í þessum gír, lögin bera öll með sér þjóðlagakeim, missterkan þó. „Hetjudáðir“ hefur t.a.m. yfir sér afskaplega norrænan svip, „Sonnetta um sumartíð“ – eitt besta lagið hér – er hins vegar strípað og óræðara, leitt af píanóleik Ingunnar. Flæðið er svo skemmtilega brotið upp með „Undraveröld“ sem er grófasta lagið hér ef svo má segja, í nokkurs konar balkan-gír, ásláttur knýr það áfram og í því er spenna sem ekki er að finna annars staðar. Að ósekju hefði mátt vera meira um svona æfingar, platan á það til að detta aðeins niður á köflum þar sem hvert lag minnir of mikið á hið næsta. Það má líka kvarta aðeins yfir textum, boðskapur er jafnan hlýr og vel meinandi en bragarhættir og orðaval stundum klaufskt.

Lofandi

Það skrifast samt fyrst og síðast á reynsluleysi höfundar í þessum efnum. Þó að Ingunn eigi langan feril að baki í tónlistinni er hún að gera margt í fyrsta skipti hvað dægurtónlistarbransann varðar og hlutirnir því ekki fullkomnir frá fyrsta degi. En efnið og hæfileikarnir eru allir til staðar og þessi frumraun hennar á sviðinu er þegar allt er saman tekið, afar lofandi. Ég get þá að lokum umslags og ímyndarvinnu sem er glæsilega af hendi leyst.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fjúk

Tónlist

Eilífðarjónum hleypt á skeið

Tónlist

Norræni tónninn fangaður

Tónlist

Vel heppnuð og smekkleg gírskipting