Berjast gegn ofbeldis- og nauðgunarmenningu

05.05.2018 - 19:43
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Kvennahreyfingin, sem býður í fyrsta skipti fram í Reykjavík í vor, ætlar að berjast gegn ofbeldis- og nauðgunarmenningu í samfélaginu. Engir karlmenn eru á lista hreyfingarinnar.

Á stefnuskrá hreyfingarinnar er að breyta leikreglum samfélagsins, þannig að tekið verði tillit til ólíkrar stöðu og fjölbreytileika fólks af öllum kynjum, og að skapa samfélag þar sem öryggi fólks af öllum kynjum verði tryggt. Engir karlmenn eru á listanum, enda vill hreyfingin vinna sín stefnumál út frá reynsluheimi kvenna.

„Kvennahreyfingin stendur fyrir það að við viljum berjast gegn ofbeldis- og nauðgunarkúltúr sem viðgengst í samfélaginu. Það er aðalatriðið,“ segir Ólöf Magnúsdóttir, oddviti Kvennahreyfingarinnar. „Það hafa átt sér stað brjálæðislegar samfélagsbyltingar undanfarið, en það hefur ekki skilað sér inn í stjórnmálin. En það er fólkið í stjórnmálum sem hefur valdið til að gera breytingar. Þannig að við erum orðnar langþreyttar á að bíða eftir því og við ætlum bara að breyta þessu sjálfar.“

Hvernig ætlið þið að fara að því?

„Með því að hafa hátt,“ segir Ólöf.

Bílabrautir síðar

Þannig vill hreyfingin styrkja Jafnréttisskólann og setja mikið fjármagn í hann. Mikilvægt sé að kenna jafnrétti á öllum skólastigum. Þá vill hreyfingin halda betur utan um þann hóp sem orðið hefur fyrir ofbeldi en nú er gert, og verja meira fé í þann málaflokk.

„Og okkur finnst það sýna mjög undarlegt verðmætamat að við setjum allt okkar púður í að tala um bílabrautir og byggingar, þegar það er fólk í samfélaginu sem líður illa, þegar það er bara eitthvað að samfélagsmyndinni okkar. Okkur finnst aðalatriðið að laga samfélagið og að hér líði fólki vel. Við getum byggt bílabrautir þegar það er búið.“

Nú benda kannanir til þess að meirihluti borgarfulltrúa verði konur, er þörf á svona framboði?

„Já, svo sannarlega. Það virðist hafa verið þannig undanfarið að flokkar skreyti sig með femínískum málefnum í kosningabaráttunni. En svo sjáum við það á því sem er gert að það virðist gleymast, það virðist gleymast í hinu daglega þrasi að fókusera á femínísk málefni.“

Hvað stefnið þið á að ná mörgum mönnum inn í borgarstjórn?

„Eins mörgum og hægt er,“ segir Ólöf.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi