Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Berjast gegn lokun hverfisskóla í Staðahverfi

20.03.2019 - 11:30
Mynd með færslu
Kelduskóli-Korpu í Staðahverfi í Grafarvogi. Mynd: skjáskot af ja.is. Mynd:
Foreldrar nemenda í Kelduskóla-Korpu í Staðahverfi í Grafarvogi ætla að berjast gegn hugmyndum borgarinnar um að loka skólanum og hafa safnað á níunda hundrað undirskrifta. Viðmælendur segja að fólk sé orðið langþreytt á óvissu um skólastarf í hverfinu. Fólk vilji miklu frekar að skólinn verði efldur en að láta leggja hann niður.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar skoðar nú þann möguleika að loka Kelduskóla-Korpu og senda nemendur þaðan í Kelduskóla-Vík sem er í næsta hverfi. Skúli Helgason, formaður ráðsins, sagði í samtali við fréttastofu í gær að helsta ástæðan væri sú að börnum í hverfinu hafi fækkað og að í sumum árgöngum séu fáir nemendur, jafnvel færri en tíu. Náms- og félagslega sé talið betra fyrir nemendur að vera í stærri skóla.

Telur að margir myndu sakna hverfisskólans

„Þetta er mjög alvarlegt mál og snertir bæði fasteignaeigendur, foreldra og börn í hverfinu. Við erum ósátt með hvað tillaga skóla- og frístundasviðs er illa ígrunduð og lítið lagt í vinnu við hana. Það myndu margir sakna þess góða og faglega starfs sem unnið er í Kelduskóla-Korpu,“ segir Sævar Reykjalín, faðir þriggja barna í skólanum og stjórnarmaður í foreldrafélagi skólans. 

Foreldrar hafa tekið saman fjölda barna á grunnskólaaldri sem búa í hverfinu og eru þau 168. Skólinn er byggður fyrir 170 nemendur. Nemendur í skólanum eru nú 61. 

Segir samgöngur ekki nógu góðar

Ingvar Guðmundsson, faðir tveggja barna sem voru í skólanum, keypti fokhelt hús í hverfinu árið 1999 og samkvæmt deiliskipulagi átti að vera þar grunnskóli fyrir nemendur í 1. til 10. bekk. Hann segir mjög bagalegt ef hverfisskólanum verði lokað. Árið 2008 var unglingastigið, 8. til 10. bekkur, fært í Kelduskóla-Vík. Bekkirnir höfðu verið í bráðabirgðahúsnæði sem var orðið myglað. Ingvar kveðst ekki ánægður með þá ráðstöfun. Þá hafi borgin lofað því að góðar samgöngur yrðu úr Staðahverfi í skólann í Víkurhverfi. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Þegar skóladagurinn sé búinn fyrr, eins og til dæmis þegar samræmd próf eru, þá sé börnunum ekki ekið fyrr heim, heldur á sama tíma og þegar kennsla er. Ingvar vill að unglingastigið verði fært aftur í Kelduskóla-Korpu og skólinn efldur.

Segir ánægju með samkennslu

Formaður skóla- og frístundaráðs hefur einnig nefnt að nokkrum árgöngum sé kennt saman vegna fámennisins og því vilji borgin breyta. Sævar kveðst afar ánægður með samkennsluna. 1. til 3. bekk er kennt saman. Tvö barna hans eru í 1. og 3. bekk og segir hann fyrirkomulagið hafa gengið mjög vel. „Skólinn var byggður með það í huga að þar sé samkennsla. Hönnun hússins var byggð með það í huga. 1. til 3. bekk er kennt saman í 27 manna bekk og foreldrar og nemendur eru hæst ánægðir með það fyrirkomulag,“ segir Sævar.

Óttast að skutl eigi eftir að aukast

Hugmyndir sem þessar hafa verið í umræðunni lengi og segir Sævar að foreldrar séu orðnir langþreyttir á óvissunni, sem hafi líka áhrif á börnin. Hann segir dæmi um að foreldrar hafi flutt börn sín úr skóla í Staðahverfi vegna óvissunnar til að koma í veg fyrir að þau þurfi á miðri skólagöngu að skipta um skóla ef ákveðið yrði að loka skólanum. 

Meðal mótvægisaðgerða, verði skólanum lokað, sem borgin hefur til skoðunar er að bæta samgöngur á milli hverfanna. Sævar segir erfitt fyrir íbúa að treysta slíku og hann kveðst efast um að skóla- og frístundaráð hafi fjárveitingavald til þess. Hann segir miklu vænlegra að borgin bæti samgöngur fyrst og kynni svo hugmyndir sem þessar. Ljóst sé að skutl foreldra eigi eftir að aukast mikið ef að lokuninni verði. 

Gagnrýna hve stuttan tíma starfshópur fær

Borgin ætlar að skipa starfshóp um skólastarf í norðanverðum Grafarvogi sem á að skila niðurstöðum í lok næsta mánaðar. Sævar segir foreldra gagnrýna þann stutta tíma sem hópurinn fái. Á tímabilinu séu margir frídagar, til dæmis vegna páskanna. „Þessi vinna getur aldrei orðið fugl né fiskur á svona stuttum tíma. Ef það væri raunveruleg löngun til að gera betur þá ætti hópurinn að taka sér út þetta ár til að vinna þetta.“