Bergi Þór boðið að koma fyrir allsherjarnefnd

29.08.2017 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bergi Þór Ingólfssyni, föður stúlku sem Robert Downey misnotaði hefur verið boðið að tjá sig á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í fyrramálið. Dómsmálaráðherra kemur einnig fyrir nefndina.

Tvær nefndir Alþingis fjalla á morgun um reglur um uppreist æru. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur saman klukkan níu. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra kemur fyrir nefndina og gerir grein fyrir verklagi við veitingu uppreistar æru og hugmyndum um breytingar á verklagi, segir Brynjar Níelsson formaður nefndarinnar. 

Opinn fundur í beinni útsendingu

Seinni fundurinn, fundur allsherjar- og menntamálanefndar verður opinn. Hann hefst klukkan hálf ellefu, verður sýndur í sjónvarpi, á vef Alþingis og á ruv.is. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndarmaður Pírata, fór fram á þann fund til að hægt væri að ræða fyrir opnum tjöldum um veitingu uppreistar æru almennt, ferlið við veitingu hennar og hvernig standi til að breyta því. Dómsmálaráðherra situr einnig fyrir svörum á þeim fundi. 

Þá vill Þórhildur Sunna jafnframt ræða mál Roberts Downeys sérstaklega. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður nefndarinnar bendir á að nefndarmönnum sé að sjálfsögðu heimilt að spyrja að hverju sem er, en þar sem fundurinn sé opinn geti dómsmálaráðherra þurft að vísa til trúnaðarskyldu í því máli í einhverjum tilvikum. 

Faðir kemur fyrir nefndina

Þórhildur Sunna óskaði jafnframt eftir því að Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar stúlkunnar, sem Robert Downey var dæmdur fyrir að misnota, fái að tjá sig fyrir nefndinni. Áslaug Arna hefur orðið við þeirri beiðni. 

Bergur Þór skrifar harðorða grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann gagnrýnir málsmeðferðina alla, afgreiðslu embættismanna, dómsmálaráðherra, ríkisstjórnar, forseta, ríkisráðs og meðferð stjórnskipunar- og eftirlitnefndar. 

Roberti Downey var veitt uppreist æru 16. september í fyrra. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2008 fyrir kynferðisbrot gegn ungum stúlkum. Stundin greindi frá því á dögunum, að öðrum barnaníðingi hefði verið veitt uppreist æru sama dag og Roberti. Sá hafði nauðgað stjúpdóttur sinni, nær daglega frá því að hún var 5 ára þar til hún var tæplega 18 ára gömul. Hann var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi. Stundin greinir frá því að maðurinn hafi, skömmu eftir að honum var veitt uppreist æru, skrifað á Facebooksíður ungra víetnamskra stúlkna að þær væru fallegar, sætar og sexý.