Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bera svarta slaufu við útskriftina

20.06.2015 - 08:10
Mynd með færslu
 Mynd: Hjúkrunarfræðideild HÍ
70 nemar í hjúkrunarfræði sem útskrifast frá Háskóla Íslands í dag hyggjast bera svarta slaufu við útskriftarathöfnina til marks um að það sé liðin tíð að konur sætti sig við kynbundinn launamun og mismunun.

Í yfirlýsingu frá hópnum segir að hjúkrunarfræðingar hafi þurft að heyja baráttu gegn forneskjulegum hugmyndum um að réttlætanlegt sé að svokallaðar kvennastéttir séu með lægri laun en aðrar stéttir með sambærilegt nám að baki. Nemarnir segjast stoltir af menntun sinni og segja möguleikana að loknu námi fjölbreytta. Þeir vonast til að sjá sér fjárhagslega fært að starfa hér á landi í þágu almennings á Íslandi.

Í fréttum RÚV í gær var greint frá því að minnst 125 hjúkrunarfræðingar hafi sagt upp störfum á Landspítalanum undanfarna daga vegna lágra launa og lagasetningar á verkfall þeirra fyrir tæpri viku. Heildarfjöldi þeirra sem sagt hefur upp liggur þó ekki fyrir fyrr en eftir helgi.