Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bera skömm vegna kynferðisofbeldis í hljóði

Mynd: Sigurþóra Bergsdóttir / Sigurþóra Bergsdóttir
Einn af hverjum sex karlmönnum verður fyrir kynferðisofbeldi einhvern tíma á ævinni. Móðir drengs, sem fyrirfór sér eftir að hann varð fyrir kynferðisofbeldi, segir að enn fylgi mikil skömm þolendum. Pilturinn hélt ofbeldinu leyndu fyrir fjölskyldunni árum saman og sagði vinum sínum aldrei frá því. 

Bergur Snær var nítján ára gamall þegar hann fyrirfór sér, eftir að hann varð fyrir kynferðisofbeldi á unglingsárum. Hann hélt ofbeldinu leyndu fyrir fjölskyldu sinni, en málið komst upp þegar ofbeldismaðurinn var til rannsóknar hjá lögreglu vegna brota gegn fjölda pilta. Móðir Bergs, Sigurþóra Bergsdóttir, segir frá þessu á ráðstefnu um kynferðisofbeldi gegn körlum, sem fer fram í háskólanum á Akureyri um næstu helgi.

„Fastur í neti“

„Einhvern veginn nær þessi brotamaður að sannfæra hann um það að hann eigi ekki að segja frá, og megi ekki segja frá, og skömmin og það að vera lentur í  þessum aðstæðum verður til þess að Bergur Snær bara gat ekki sagt frá. Hann sagði sjálfur að hann hafi verið fastur í neti, hann bara gat ekki losað sig,“ segir Sigurþóra. „Og ég held að drengir - þó svo að fleiri stúlkur en drengir verði fyrir kynferðisofbeldi - þá hefur þetta verið gríðarlega leynt með drengina. Mjög margir drengir og ungir menn, og karlmenn, sem hafa lent í síku, sitja fastir og finnast þeir ekki geta sagt frá því skömmin er svo mikil.“

Sigurþóra segir skorta heildstæð úrræði fyrir börn og ungmenni sem eru í þessari stöðu. Þau flosni gjarnan úr skóla, haldist illa á vinnu, viðhafi sjálfskaðandi hegðun eða leiti í vímugjafa. „Það er einhvern veginn alltaf verið að takast á við einhvern smá hluta af málunum hér og þar, í staðinn fyrir að bara taka utan um þau og hjálpa þeim að byggja sig upp um leið og það er verið að vinna með undirliggjandi vanlíðan sem kemur vegna ofbeldisins.“

Áfall þegar málið leiddi ekki til ákæru

Sigurþóra kærði ofbeldið, þar sem Bergur var enn á barnsaldri þegar rannsókn lögreglu á brotum mannsins hófst. Hún segir að erfiðast hafi verið þegar mál Bergs var fellt niður og leiddi ekki til ákæru. „Það var gríðarlegt áfall. Og við upplifðum uppgjöf og vonleysi eftir það, hjá honum, og honum fannst hann hafa litlu að tapa.“ 

Máli ákæruvaldsins gegn brotamanninum lauk með þriggja ára fangelsisdómi fyrir kynferðisbrot gegn níu drengjum.

Rætt var við Sigurþóru í Morgunútvarpinu á Rás 2 og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV