Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bera fullt traust til forstjórans

02.12.2018 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd: WOW air
Forsvarsmenn stéttarfélaga flugmanna og flugfreyja félagsins treysta forstjóra þess og sjá enga ástæðu til að efast um að félagið verði áfram íslenskt. Flugvirkjar vona það besta.

 

Fylgjast vel með félaginu

Samgönguráðherra segir að Samgöngustofa og stýrihópur stjórnvalda um kerfislega mikilvæg fyrirtæki fylgist grannt með félaginu. Stjórnvöld voni það besta en hafi búið sig undir þaði versta. Hann segir ekkert í rekstri WOW hafa gefið tilefni til þess að Samgöngustofa, sem metur hvort flugfélög séu hæf til að vera með flugrekstrarleyfi, grípi til aðgerða. „Flugöryggi hefur verið mjög gott og allt sem fyrirtækið hefur þurft að standa fyrir hefur gengið eftir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson. 

Mikilvægast að félagið verði í öflugum rekstri

Hann vonar að viðræður Indigo Partners og WOW beri ávöxt. Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, hefur sagt að félagið verði íslenskt áfram og með heimahöfn í Keflavík. En væri áhætta í því fólgin fyrir hagkerfið ef félagið flytti höfuðstöðvar úr landi. „Ég verð að segja alveg eins og er að eins og staðan er núna skiptir öllu máli að félagið sé áfram í öflugum rekstri. Hvað síðar gerist í framtíðinni í þessu mikla samkeppnisumhverfi sem flugið er get ég einfaldlega ekki tjáð mig um,“ segir Sigurður Ingi. 

Óttast ekki að launin lækki

Skúli hefur svarað því játandi að félagið verði íslenskt áfram með heimahöfn í Keflavík og íslenskar áhafnir. Orri Þrastarson, varaformaður Flugfreyjufélags Íslands, segist ekki sjá ástæðu til að rengja orð hans. Vignir Örn Guðnason, formaður íslenska flugmannafélagsins, tekur í sama streng. Hann telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur í ljósi þeirrar góðu samvinnu sem stéttarfélagið hafi átt við WOW air. Félagið beri fullt traust til Skúla Mogensen og annarra yfirmanna hjá flugfélaginu og félagsmönnum hafi ekki verið tjáð annað en að Skúli verði áfram með meirihluta í félaginu og stýri því áfram. Flugmannafélagið óttast ekki að Indigo Partners krefjist þess að fólki verið sagt upp eða laun lækkuð. 

Tæpur þriðjungur starfar fyrir erlendar áhafnaleigur

Stærstur hluti flugmanna sem flýgur fyrir Wow er í íslenska flugmannafélaginu en Vignir segir að tæpur þriðjungur starfi fyrir erlendar áhafnaleigur og séu ekki í félaginu. Vignir segir kjör þeirra þó sambærileg öðrum og að öllum sem fljúgi fyrir félagið bjóðist að vera á kjarasamningi hjá stéttarfélaginu. 

Erfitt að finna störf, komi til uppsagna

Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður flugvirkjafélags Íslands, hefur vissar áhyggjur af stöðunni en vonar að viðræður við Indigo Partners gangi upp og Wow air geti haldið áfram rekstri á Íslandi. Annað væri slæmt, þar sem 50 - 60 flugvirkjar starfi fyrir WOW. Markaðurinn sé lítill og erfitt fyrir svo marga flugvirkja að finna ný störf á skömmum tíma, komi til uppsagna. 
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV