Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ber traust til allra ráðherra

05.03.2018 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist bera fullt traust til allra ráðherra í ríkisstjórninni. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra við upphaf þingfundar en það var Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður stjórnskipunarnefndar, sem spurði hvort dómsmálaráðherra nyti trausts hennar.

Helga Vala spurði forsætisráðherra út í stöðu Landsréttar sem hún sagðist hafa verulegar áhyggjur af í ljósi stöðu réttarins eftir að dómsmálaráðherra skipaði dómara við réttinn sem hæfisnefnd hafði ekki talið hæfasta. Forsætisráðherra sagðist almennt bera traust til dómskerfis í landinu. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra út í sama mál og spurði út í fyrirséða réttaróvissu sem geti fylgt Landsrétti á næstu árum í ljósi þess sem áður hefur verið sagt. Stjórnarandstaðan hefur áður rætt hugsanlegt vantraust á dómsmálaráðherra og samkvæmt heimildum fréttastofu munu fulltrúar stjórnarandstöðu hafa fundað á ný um slíkt hugsanlegt vantraust vegna réttaróvissu um Landsrétt, en engin niðurstaða liggi fyrir.