Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ber fullt traust til Sigríðar Bjarkar

02.03.2015 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Ólöf Nordal innanríkisráðherra segist bera fullt traust til Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Persónuvernd úrskurðaði í síðustu viku að ekki hefði verið lagaheimild fyrir því að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, og núverandi lögreglustjóri í Reykjavík, sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, greinargerð um lögreglurannsókn á hælisleitandanum Tony Omos, daginn eftir að Gísli Freyr lak minnisblaði um Omos í fjölmiðla. Sigríður Björk skráði sendinguna ekki í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum. Sjálf þvertekur hún fyrir að hafa brotið lög.  „Ég ber fullt traust til Sigríðar Bjarkar og ég held að hún hafi og tel að hún hafi starfað af fullum heilindum í þessu máli. Hún var í mjög góðri trú þegar hún afhenti þessi gögn til ráðuneytisins,“ segir Ólöf. 

„Hér er dregið mjög skýrt fram að við þurfum að gæta alveg sérstaklega vel hvernig við meðhöndlum trúnaðarupplýsingar, persónulegar viðkvæmar trúnaðarupplýsingar,“ segir Ólöf.  Persónuvernd segir að sá sem ber ábyrgð á miðlun upplýsinganna, í þessu tilfelli lögreglustjórinn á Suðurnesjum, beri ábyrgð á að vinnsla þeirra samrýmist lögum. Berist honum beiðni um persónuupplýsingar eigi hann að kanna á hvaða lagagrundvelli beiðnin er sett fram og taka afstöðu til hennar í því ljósi.

Eftir að DV upplýsti um samskipti Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys í nóvember sendi stjórn Lögreglustjórafélags Íslands frá sér fréttatilkynningu til varnar Sigríði Björk. Tilkynningin var send úr tölvu Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðstoðarlögreglustjóra í Reykjavík og helstu samstarfskonu Sigríðar Bjarkar til margra ára. Formaður lögreglustjórafélagsins sagðist hafa fengið tölvuna lánaða. Í fréttatilkynningunni segir að lögreglustjórar hafi aldrei þurft að efast um heimild starfsmanns ráðuneytis til að eiga í samskiptum við lögreglustjóra eða að samskiptin séu skráð í málaskrá ráðuneytisins. Lögreglustjórar líti einfaldlega svo á að ekki þurfi að efast um umboð ráðuneytisstarfsmanna til samskipta við lögreglustjóra. Nokkru eftir samskipti Gísla Freys og Sigríðar Bjarkar lagðist lögreglan í Reykjavík í margra mánaða rannsókn á lekanum úr ráðuneytinu. Á meðan rannsókninni stóð greindi lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Sigríður Björk, lögreglunni í Reykjavík aldrei frá samskiptum sínum við Gísla Frey.

Skapar það enga tortryggni að hún hafi ekki látið rannsóknaraðila vita að hún hafði þessi gögn undir höndum? „Við erum ekkert að fjalla um það. Við erum að fjalla hér um það hvort hún hafi mátt afhenda gögnin og undir hvaða kringumstæðum það var gert. Og hér er verið að vekja athygli á því hversu mikilvægt er að það sé allt rétt með farið,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra. Nánar verður rætt við hana í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.