Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bentu lögreglu á auglýsendur

29.09.2011 - 18:00
Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins segir það skýrt að blaðið hafi engan áhuga á að vera skjól fyrir dulbúnar vændisauglýsingar. Ólafur sagði í síðdegisútvarpinu í dag að blaðið hafi neitað að birta auglýsingar þar sem slíkt var gefið í skyn með beinum eða óbeinum hætti.

„Okkur er hins vegar vandi á höndum þegar verið er að auglýsa nuddþjónustu, sem er lögleg, þó fólk geti grunað ýmislegt. Það sem hefur verið gert í því tilviki er að lögreglu hafa verið sendar upplýsingar um þessa auglýsendur. Það var fyrst gert 2009 og hefur verið gert reglulega síðan,“ segir Ólafur. Hann segir að blaðið hafi spurt lögregluna hvað hafi komið út úr rannsókn slíkra ábendinga, án þess að fá svör.

„Þess vegna kom það okkur vissulega á óvart þegar yfirmaður kynferðisbrotadeilda lögreglunnar lýsti því yfir hjá ykkur í gær að þetta væru ótvírætt auglýsingar um vændi og að við værum hugsanlega sek um einhverja milligöngu. Þetta höfum við ekki fengið að heyra frá lögreglunni áður. Svo er manni að sjálfsögðu brugðið þegar maður heyrir slíkt.“

Útgefendur Fréttablaðið hafa óskað eftir því að ræða málið við lögregluna og fulltrúa Stígamóta þar sem meðal annars verður útbúinn sérstakur gátlisti fyrir blaðið til að fara eftir við meðhöndlun auglýsinga sem þessara.