„Benni! Ætlarðu að drepa mig?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Benni! Ætlarðu að drepa mig?“

25.05.2018 - 13:12

Höfundar

Halldóra Geirharðsdóttir leikur aðalhlutverkið í kvikmynd Benedikts Erlingssonar Kona fer í stríð, sem var frumsýnd í Cannes og er nú komin í sýningar á Íslandi. Í föstudagsviðtali í Mannlega þættinum segir Halldóra frá því hvernig handboltastelpa úr Fossvoginum endaði á frumsýningardregli á virtustu kvikmyndahátíð heims.

Í kvikmyndinni Kona fer í stríð leikur Halldóra stærsta kvikmyndahlutverk sitt hingað til (reyndar tvö) undir stjórn vinar síns Benedikts Erlingssonar, en þau hafa margoft unnið saman í leikhúsi. Hún segir að það ríki mikið traust þeirra á milli sem hafi skipt gríðarlegu máli og haft mikil áhrif á lokaniðurstöðuna. „Það er frábært að vinna með svona góðum vini þínum. Ég gat öskrað á hann „Benni! Ætlarðu að drepa mig?““

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldóra í hlutverki sínu í Kona fer í stríð.

Halldóra var föstudagsgestur Mannlega þáttarins á Rás 1. Hún talaði um æskuslóðirnar í Fossvoginum, þar sem hún var í barnaskóla og æfði handbolta, en hún varð Íslandsmeistari fjögur ár í röð með Víkingi. Halldóra segist ekki hafa skarað fram úr á því sviði, en hún hafi nýtt leiklistarhæfileika sína til að fiska víti. „Dómarar og andstæðingar hötuðu mig,“ segir hún.

Hamingjan felst ekki í munstrum

Fimmtán ára flutti hún í Þingholtin og fór í Hagaskóla. Þar kynntist hún pönkinu og hætti í handboltanum. Það gekk ekki upp að fara á pönk- og rokktónleika allar helgar og vakna svo klukkan sjö morguninn eftir og keppa í handbolta. Halldóra segir að það sé gott að brjóta upp rammann. „Hamingjan felst ekki alltaf í munstrunum,“ segir hún. „Ég er mikið fyrir að frelsast frá munstrum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Risaeðlan
Halldóra var í hljómsveitinni Risaeðlan.

Halldóra var í tónlistarskóla frá unga aldri og fór að spila í hljómsveit eftir að hún byrjaði í Hagaskóla og svo í framhaldinu í MH ásamt Möggu Stínu vinkonu sinni og nokkrum strákum. Hún segir að þá hafi verið mjög sjaldgæft að stelpur fengju að vera með í hljómsveitum. „Það var ekki sjálfgefið, það var bara ein og ein, Björk og Ellý í Q4U,“ segir Halldóra. „Strákarnir, vinir okkar, hleyptu okkur inn.“ Þessi hljómsveit breytti margoft um nafn en endaði svo sem Risaeðlan, sem varð talsvert þekkt og fór meðal annars í tónleikaferðir til útlanda með Sykurmolunum.

Vildi ekki verða þrítug og bitur

Halldóra segir að hún hafi smitast af leiklistarbakteríunni snemma. Hún lék ung í sýningunni Óvitar, eftir Guðrúnu Helgadóttur, sem Brynja Benediktsdóttir leikstýrði í Þjóðleikhúsinu. Þar kynntist hún mörgum sem hún átti eftir að vera í talsverðu sambandi við allt til dagsins í dag, til dæmis Benedikt Erlingssyni og Steinunni Ólínu. Hún ákvað að sækja um í leiklistarskólanum þegar hún var rúmlega tvítug og orðin móðir og komst inn. „Ég þurfti að horfast í augu við það að ég yrði að fara í inntökupróf í leiklistarskóla því ég vildi ekki verða þrítug og bitur að segja „ég ætlaði alltaf í inntökuprófin en fór ekki“. Mér fannst fólk sem sagði svona hallærislegt.“ Hún hugsaði með sér að hún yrði að afhjúpa sinn innsta draum um að verða leikari. „Ég varð bara að fórna mér.“

Þar segist henni loksins hafa liðið vel við nám, þangað til hafði hún í rauninni alltaf verið að leita leiða til að komast stuttu leiðina að takmarkinu og ósjaldan svindlað í prófum og verkefnum, en í Leiklistarskólanum vildi hún ekki svindla neitt.

Mávurinn
 Mynd: Grímur Bjarnason - Borgarleikhúsið
Halldóra hefur verið fastráðin við Borgarleikhúsið síðan 1995. Hér má sjá hana í uppsetningu leikhússins á Mávinum eftir Tsjekov.

Hún fann sig fljótt í leiklistinni, en var samt ekki viss um að hún ætti eftir að verða leikkona, hélt jafnvel að hún myndi fara í leikstjórn. En eftir að hún kynntist trúðleik lærði hún að leika sér innan rammans, að fá frelsið til að spinna og skapa. „Það er svona djass í trúðleiknum. Þú kannt línurnar en þú mátt aðeins djassa þær. Það átti mjög vel við mig.“ Þá fór að kvikna á henni. Hún fékk tækifæri í leikhúsum og varð fastráðin við Borgarleikhúsið og hefur leikið í fjölda leikverka á þeim rúmu tuttugu árum frá því hún útskrifaðist.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Mynd Benedikts sögð ein sú besta á Cannes

Kvikmyndir

Eins manns her á móti auðvaldinu

Kvikmyndir

Kona fer í stríð hlýtur Gyllta lestarteininn

Kvikmyndir

Benedikt og Ólafur fá verðlaun á Critic's Week